Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir uppsögn framkvæmdastjóra tímanna tákn

14.09.2018 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kemur saman til aukafundar í dag vegna uppsagnar framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar. Formaður borgarráðs telur viðbrögðin vera tímanna tákn, líklega hefði verið brugðist öðruvísi við fyrir fáeinum árum, en mikilvægt sé að taka ákveðið á málum sem þessum.

Bjarna Má Júlíussyni framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, var sagt upp störfum í fyrradag vegna óviðeigandi framkomu gagnvart samstarfsfólki sínu. Samkvæmt því sem fram hefur komið viðhafði hann orðalag í tölvupósti til kvenkyns vinnufélaga sem ekki þótti sæmandi. Reykjavíkurborg er langstærsti eigandi Orkuveitunnar. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs tjáði sig um málið á Facebook og sagði meðal annars að ekki væri hægt að stjórna fólki, en hægt væri að stjórna því hverjir stjórni.

„Mér finnst bara mjög mikilvægt, alveg óháð því hvaða fyrirtæki á í hlut, þá finnst mér mjög mikilvægt að það sé brugðist við og svona málum sé ekki bara sópað undir teppið. Nú hefur stjórn ON sagt þessum manni upp og tekið fast og hratt á því máli og það er gott, en það breytir því ekki að við þurfum að horfa á þetta alls staðar, í öllum fyrirtækjum, í öllum stofnunum og alls staðar á landinu,“ segir Þórdís Lóa.

Hún minnir á að konur og karlar byggi saman upp vinnumarkaðinn til jafns.

„Og við verðum að bera virðingu fyrir því, alveg sama hvað okkur finnst eitthvað prívat sniðugt og fyndið, þá verðum við alltaf að muna þetta. Þess vegna finnst mér þetta svo mikilvægt að við tökum ákveðið á svona málum, en ekki síst að við höldum áfram að tala um þau og látum þetta ekki bara þagna á milli einhverra eldgosa, heldur höldum þessari vinnu áfram.“

Hún segist ekki vita til þess að stjórn Orku náttúrunnar hafi verið beitt pólitískum þrýstingi, sjálf hafi hún ekki gert slíkt.

„Nei, ég gerði það ekki nema bara á Facebook.“

Aðspurð hvort hún teldi að eins hefði verið brugðist við fyrir einhverjum árum, eða hvort viðbrögðin núna væru tímanna tákn, segir hún.

„Ég hefði náttúrlega viljað geta svarað því að eins hefði verð brugðist við fyrir 5-10 árum, en ég er hrædd um ekki, ég held nefnilega að MeToo byltingin hafi svolítið opnað augu okkar allra um hvers lags samfélagsmein við erum að berjast við og ég held að það svolítið tímanna tákn núna.“

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kemur saman til aukafundar í dag með forstjóra félagsins. Að sögn Brynhildar Davíðsdóttur stjórnarformanns var stjórninni gerð grein fyrir málinu strax að loknum stjórnarfundi Orku náttúrunnar í fyrradag, en fundurinn í dag verði til frekari upplýsingar. upplýsingafundur þar sem stjórn Orkuveitunnar verði gerð betur grein fyrir málinu.