Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir umræðuna litaða af hroka og yfirlæti

07.03.2019 - 12:51
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segir lífsnauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að Hvalá verði virkjuð. Umræða um framkvæmdir á svæðinu séu litaðar af yfirlæti og hroka í garð Vestfirðinga.

Telur nauðsynlegt að hraða framkvæmdunum

Fyrirhugað er að Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum verði virkjuð. Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokki Rammaáætlunar en Skipulagsstofnun telur virkjunina koma til með að hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og víðerni. Landvernd hefur skorað á umhverfisráðherra að hraða vinnu við friðlýsingu og biðlað til hreppsnefndar Árneshrepps að taka til skoðunar friðlýsingu á óbyggðum víðernum á skipulagssvæði hreppsins í stað Hvalárvirkjunar. Forsvarsmenn hafa haldið sínu striki og boða bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum. Guðmundur segir engan vafa á að raforkumálin á landsfjórðungnum séu í algjörum ólestri.  

„Uppbygging á þessari virkjun við Hvalá sem er í nýtingarflokki, sem við erum löngu búin að ákveða og skilgreina, er vænlegur kostur fyrir uppbyggingu raforku á svæðinu. Þetta er bara algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir okkur að það verði að þessum framkvæmdum og að þeim verði hraðað eins og kostur er. “

Staða máli hamli sveitarfélaginu í allri samkeppni og í þeirri viðleitni að fá fleiri í störf út á land. 

„Það hamlar í rauninni núverandi, ekki bara uppbyggingu, heldur núverandi starfsemi fyrirtækja á svæðinu og það hefur verið þannig allt, allof lengi og ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu mikil og víðtæk áhrif það hefur að eiga það á hættu að missa út rafmagn þetta oft á ári eins og við höfum upplifað. “

Segir talað niður til Vestfirðinga

Hann segir Vestfirðinga virta af vettugi í umræðunni um Hvalárvirkjun og að algengt sé að talað sé niður til þeirra með yfirlæti og hroka. 

„Við sem fjórðungur, Vestfirðir, höfum fyrir löngu siðan tekið afstöðu með umhverfinu. Þetta er eini umhverfisvottaði fjórðungurinn á landinu. Það getur enginn annar fjórðungur sagt. Það að leyfa náttúrunni að njóta vafans er gömul ákvörðun og það er eitthvað sem ég held að menn ættu að passa sig að vera ekki að garga of mikið á sjálfan sig í speglinum að þegar þeir eru að tala til okkar með þessum hætti, af yfirlæti og hroka, og lýsa því yfir að við skiljum ekki hvernig málin eru vaxin, eða hvað sé mikilvægt, að þá held ég að menn ættu aðeins að velta fyrir sér sögunni. 

„Við höfum fullan skilning á því að við getum aldrei farið í nýtingu eða uppbyggingu á virkjunum án þess að það hafi einhver áhrif á náttúruna, það hefur gerst út um allt. En það sem okkur sárnar og leiðist óskaplega er að í allri þessari umræðu um þetta og um uppbyggingu í fiskeldi þá virðast menn alltof oft fara út í þá sálma að tala til okkar Vestfirðinga eins og við vitum ekki nóg, skiljum ekki nóg, séum of bláeyg fyrir þvi að verið sé að hafa okkur af féþúfu af erlendum auðjöfrum,“ segir Guðmundur. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Guðmund í spilaranum hér fyrir ofan.