Segir umræðuna í nótt ekki málþóf

27.02.2019 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Miðflokksins og formaður í efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis eru sammála um að miklir hagsmunir séu í húfi í málinu sem rætt var í alla nótt á þinginu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að þingmenn flokks hans vilji svör frá stjórnvöldum. Formaður nefndarinnar, Óli Björn Kárason, segir hins vegar að Sigmundur Davíð hafi ekki mætt á mikilvæga fundi nefndarinnar þar sem færi gafst á að leggja fram spurningar.

Þingflokkur Miðflokksins sendi frá sér tilkynningu síðdegis þar sem hann gagnrýnir að þeir sem styðji frumvarp fjármálaráðherra skuli ekki taka til máls og verja það. Frumvarpið var rætt til klukkan hálfsex í morgun og er um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, og gjaldeyrismál sem tengist aflandskrónulosun og bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi. 

Miðflokkurinn telur milljarða í húfi

Allir aðrir flokkar standa saman að nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar. Þingmenn Miðflokksins segja að eftirgjöfin sem felist í frumvarpinu nemi hæglega tugum milljarða. „Við viljum auðvitað fyrst og fremst fá svör frá stjórnvöldum. Hvað þeim gangi til, hvers vegna þau séu tilbúin að gefa eftir gagnvart þeim vogunarsjóðum sem hafa ekki verið tilbúnir til að taka neinn þátt í efnahagslegu endurreisninni og þar með algjörlega hverfa frá áætluninni sem lagt var upp með 2015 og hefur skilað ótrúlegum árangri,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann. 

Aðspurður að því hvers vegna hann kom þessum athugasemdum ekki á framfæri í nefndinni kveðst hann marg oft hafa rætt þessi mál. Þá segir hann að þetta sé ekki málþóf. Þau snúist yfirleitt um að reyna að búa til samningsstöðu í samningum við ríkisstjórn. „Við erum ekki að reyna að ná einhverri samningsstöðu í lok þingstarfa enda langt í þau. Við viljum einfaldlega fá svör hvers vegna á að fórna hugsanlega tugum milljarða króna sem gætu nýst svo miklu betur í margt annað og hvers vegna eigi að fórna trúverðugleika íslenskra stjórnvalda.“

Segir umræðuna rýra

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir það ekki vinna hagsmunum Íslendinga gagn að halda umræðunni áfram. Hann hafi setið umræðuna í nótt og hún hafi verið innihaldsrýr. „Það var lítið komið inn á efnisatriði frumvarpsins. Það var verið að ræða um allt annað,“ segir hann.

Formaður Miðflokksins var ekki virkur í nefndinni við undirbúning frumvarpsins, að sögn Óla Björns. „Eins og kemur fram í fundargerðum sem eru opinberar er það ljóst að formaður Miðflokksins var ekki á þeim fundi þar sem fulltrúar fjármálaráðuneytis fóru yfir efnisatriði og svöruðu spurningum nefndarmanna. Hann var heldur ekki á fundi þar sem fulltrúar Seðlabankans og sérfræðingar fóru yfir málið og svöruðu með mjög ítarlegum hætti spurningum nefndarmanna.“ Þá hafi hann heldur ekki verið á þeim fundi þar sem nefndarálitið var afgreitt. Óli Björn segir að Sigmundur Davíð hefði getað gert athugasemdir við nefndarálitið, komið fram óskum um að fresta afgreiðslu þess eða halda annan fund.  

Óli Björn segir mikla hagsmuni í húfi að ljúka málinu. „26. febrúar var gjalddagi á ríkispappírum. Það vill svo til að þar er einn aðili sem er verulega stór og hefur verið að fjárfesta hér á Íslandi frá því löngu fyrir hrun, skuldabréfasjóður sem starfar eftir mjög ströngum reglum sem miða að því að sjóðurinn getur ekki haft reiðufé nema í mjög skamman tíma. Hann verður að fjárfesta í öðrum pappírum. Ef okkur tekst ekki núna á þessum sólarhringum núna að afgreiða þetta mál þá eru líkur á því að við missum til dæmis þennan aðila úr landi.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi