Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir ummæli Katrínar um ríkissjóð „yfirvarp“

23.11.2016 - 10:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spyr á Facebook-síðu sinni hvort ummæli formanns VG um að staða ríkisfjármála sé þrengri en búist var við sé yfirvarp til að réttlæta nýja og hærri skatta. Staðan sé betri en áður var gert frá sínum bæjardyrum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að staðan væri þrengri í ríkisfjármálum en búist hafði verið við og að það væri eitthvað sem þyrfti að leysa. 

Mynd: RÚV / RÚV

Formenn flokkanna fimm hittust á fundi í þinghúsinu í morgun og þar tók Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, undir orð Katrínar.  Samþykkt fjárútlát á síðustu vikum þingsins hafi ekki verið gert ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun svo munar tugum milljarða. Það setji strik í reikninginn og hann segir fjármálaráðherra og fleiri hafa talað býsna fjálglega um góða stöðu ríkissjóðs en svo komi í ljós að hún sé þrengri en menn hafi áætlað.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, svarar þessum ummælum á Facebook-síðu sinni. Þar spyr hann hvers vegna fólk sé ekki látið svara fyrir hvað sé átt við þegar það tali um að staða ríkisfjármála sé þrengri en búist var við. „Getur verið að þetta sé ekkert annað en yfirvarp til að réttlæta nýja og hærri skatta,“ skrifar Bjarni.

Starfandi fjármálaráðherra bendir á að nú horfi til þess að skattar og gjöld skili „a.m.k 10 milljörðum meira til ríkisins en áætlað var á næsta ári.“ Menn geti því ekki vísað í óvænta verri stöðu ríkisfjármála til að réttlæta skattahækkanir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV