Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir tölur OECD villandi

01.02.2018 - 19:52
Helgi Sigurðsson krabbameinslæknir.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Prófessor í krabbameinslækningum segir tölur OECD um aukna dánartíðni vegna brjóstakrabbameins á Íslandi villandi. Lífslíkur þeirra sem greinist séu hvergi meiri en hér. Hins vegar sé þjónustan ekki fullnægjandi - til dæmis séum við seinni að taka upp nýjungar nú en áður.

Landlæknir vakti á heimasíðu sinni athygli á því að Ísland væri að færast neðar á lista OECD-landa yfir þegar gæði heilbrigðisþjónustu eru annars vegar. Hann vísaði þar í skýrslu OECD um heilbrigðisþjónustu sem kom út í nóvember. Þar kemur fram að dánartíðni af brjóstakrabbameini hafi aukist frá 2005, gagnstætt þróun í öðrum ríkjum OECD. Sú niðurstaða var fengin með því að bera saman dánartíðnina á árunum 2005 og 2015.

Helgi Sigurðsson yfirlæknir og prófessor í krabbameinslækningum telur þennan samanburð villandi. Ekki sé hægt að taka eitt ár sérstaklega fyrir. „Þegar er verið að skoða dánartíðni þá gengur það ekki. Það þarf alltaf að taka fimm ára tímabil af því að við Íslendingar eru einfaldlega svo fá. Þegar við erum að bera okkur saman við Bandaríkin eru eitt ár þar eins og hundrað ár hjá okkur.“

Helgi nefnir að nýleg grein í læknatímaritinu Lancet sýni að lífslíkur eftir greiningu krabbameins séu hvergi meiri en á Íslandi. „Og þegar brjóstakrabbamein er tekið sérstaklega þá er fimm ára lifunin 90% sem þýðir að ef kona greinist með brjótakrabbamein í dag eru 90% líkur á að hún sé á lífi eftir fimm ár, og það er með því hæsta sem gerist í heiminum.“

Helgi segir miklar framfarir hafa orðið í meðferð krabbameins en þjónustan sé þó ekki fullnægjandi. Nú greinist að meðaltali 220 konur með brjóstakrabbamein á ári. Af þeim látist 40. Það sé alltof mikið, þó lífslíkurnar séu góðar. Og í sumu séum við eftirbátar nágrannalandanna. „Við vorum í rauninni alltaf með þeim fyrstu til að innleiða nýjungar í læknisfræði. En núna erum við ekki með þeim fyrstu. Nú eru nýjungar innleiddar fyrr til dæmis á hinum Norðurlöndunum.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV