Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir tillögur stjórnvalda ekki nógu róttækar

23.01.2019 - 20:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Sex af 40 tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál, sem kynntar voru í gær, snúa að leigumarkaði.  Margrét Kristín Blöndal, formaður samtaka leigjenda gagnrýnir að samtökin hafi ekki fengið fulltrúa í nefndinni.

Margrét Kristín fagnar þó vilja til að bæta réttindi leigjenda og tillögu um hert húsaleigulög. „Svo er ýmislegt sem vantar upp á þarna. Það er til dæmis þessar aðgerðir sem þurfa að fara í gang strax um fólk sem býr í ósamþykktu húsnæði,“ segir hún.

17% fullorðinna búa í leiguhúsnæði eða 35 þúsund heimili. Átakshópurinn leggur til að óhangaðardrifin húsnæðisfélög verði efld og skýrari reglur settar á leigumarkað. „Þetta er kannski ekki beint mjög róttækar breytingar sem á að fara í. Okkar krafa hefur verið fyrst og fremst sú, við viljum fá leiguþak, helst í gær, eins og í löndunum í kringum okkur. Hækkun á leiguverði hefur fengið að grassera. Við viljum að fólk sé ekki að borga meira en fjórðung af tekjum sínum í húsnæði,“ segir Margrét Kristín.

Til að stuðla að fjölbreytni leggur átakshópurinn til að hægt verði að lögfesta kröfu um að sveitarfélög ráðstafi fimm prósentum af byggingarmagni fyrir leiguíbúðir í almenna húsnæðiskerfinu. „Milljón dollara spurningin er svo hvernig stjórnvöldum ferst það svo úr hendi að framkvæma í þetta skipti þegar enn ein nefndin hefur skilað niðurstöðu,“ segir Margrét Kristín jafnframt.