Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir tilboðið það fyrsta sem vert sé að svara

15.02.2019 - 08:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson - RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir allt benda til þess að félögin fjögur, VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur, leggi fram sameiginlegt gagntilboð á fundi með Samtökum Atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag. Hann segir tilboð SA það fyrsta í kjaradeilunni sem vert sé að skoða nánar og taka afstöðu til.

Samtök atvinnulífsins lögðu fram samningstilboð í kjaraviðræðum við félögin fjögur á fundi hjá ríkissáttasemjara á miðvikudag, Tilboðið gilti til dagsins í dag. 

Samninganefnd Eflingar ætlar að leggja fram gagntilboð í dag við tilboði SA. Í yfirlýsingu frá Eflingu kemur fram að þar sé komið til móts við kauphækkunarboð SA, með því skilyrði að yfirvöld setji fram og standi við skattkerfisbreytingar.  Stjórn Eflingar og Samninganefnd samþykktu einnig ályktun um skattastefnu byggða á skattatillögum Stefáns Ólafssonar og Indriða H. Þorlákssonar. Þar er lagt til að tekju­skatt­ar á níutíu prósent al­menn­ings lækki en að tekju­hæstu fimm pró­sent­in myndu borga meira. Þess er krafist að aðgerðir sem lagðar eru til í skýrslunni verði innleiddar í næstu fjárlög. 

Ragnar Þór segir að félögin hafi mótað gagntilboð við tilboði SA í gær og í dag. Félögin ætli að hittast fyrir fundinn þar sem farið verði vel yfir allt saman og „útspili SA verði svarað efnislega.“ 

„Við höfum farið í gegnum þetta með okkar samninganefnd og þó við séum ekki búin að álykta um þetta formlega þá höfum við sett upp ákveðna beinagrind sem við ætlum að vinna með. Við munum ekki senda frá okkur tilkynningu heldur fara á fundinn með okkar mál og hvað við þurfum að gera til að leysa deiluna. “

Hann segir tilboð SA hafa verið þess eðlis að þörf var á að skoða það nánar og svara því. „Það hefur ekki áður gerst í viðræðunum að við höfum verið á þeim stað að kasta slíku á milli okkar. Það er í fyrsta skipti sem það gerist í viðræðunum. Þetta er tilboð sem við teljum okkur þurfa að taka afstöðu til. “

VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur hittast á fundi með fulltrúum Samtaka Atinnvulífsins hjá ríkissáttasemjara klukkan 11:15 í dag.