Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir þriðja orkupakkann standast stjórnarskrá

08.04.2019 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þriðji orkupakkinn stenst að fullu stjórnarskrá Íslands, sagði utanríkisráðherra á Alþingi þegar hann mælti fyrir honum síðdegis. Aðeins Miðflokkurinn og Flokkur fólksins leggjast gegn þriðja orkupakkanum.

„Margt hefur verið rætt og ritað á síðastliðnu ári um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn. Undirbúningur og samningaviðræður EFTA-ríkjanna innan EES við Evrópusambandið um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samningnum stóð í um sex ár. Á árunum 2010 til 2016, allan þann tíma, var haft náið samráð við alþingi,“ sagði utanríkisráðherra á þingi í dag. Málið hafi ekki aðeins verið í samráðsferli við nefndir þingsins heldur hafi utanríkisráðherrar á hverjum tíma gert grein fyrir því í árlegum skýrslum sínum til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. 

Tóku athugasemdir alvarlega, segir ráðherra

Guðlaugur Þór sagði að það hafi komið fram athugasemdir við upptöku þriðja orkupakkans sem stjórnvöld hafi tekið alvarlega. „Þær eiga þó ekkert skylt við þær linnulausu rangsemdir sem hafa komið fram um málið.“ Réttmæta gagnrýnin lúti að því hvort upptaka pakkans brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands. Ráðherrann sagði að stjórnvöld hafi tekið athugasemdirnar alvarlega. Allir fræðimenn sem ríkið hafi leitað álits hjá hafi verið sammála um að innleiðing orkupakkans stæðist íslenska stjórnskipun fyllilega, sagði Guðlaugur Þór. Hann lagði á það áherslu að stór hluti ákvæða orkupakkans myndi ekki hafa gildi hér á landi á meðan enginn sæstrengur til flutnings raforku til útlanda væri til staðar og að orkupakkinn hafi engin áhrif á yfirráð yfir orkuauðlindum né myndi leiða til einkavæðingar orkufyrirtækja.

Miðflokkurinn telur að ekki verði aftur snúið

Miðflokkurinn hefur lýst yfir mikilli andstöðu við málið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, gat ekki verið við umræðuna í dag þar sem hann er í Katar á vegum Alþingis á fundi Alþjóða þingmannasambandsins. Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, sagði í umræðum um málið að það væri skylda alþingismanna að virða stjórnarskrána. Verði fyrirvörum sem Ísland hafi aflétt yrði ekki aftur snúið. „Í engu hefur verið sýnt fram á að hinn lagalegi fyrirvari nægi að þjóðarrétti til að leysa okkur undan þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem við tökum á okkur með því að fella burt fyrirvarann,“ sagði Ólafur um þriðja orkupakkann.  

Guðlaugur Þór ítrekaði nokkrum sinnum í umræðunum að niðurstaða skoðunar ríkisstjórnarinnar hafi leitt í ljós að yfirráð yfir auðlindum myndu ekki tapast, hvort sem þriðji orkupakkinn verði samþykktur eða ekki. Fram kom í máli Guðlaugs Þórs að Sigmundur Davíð væri sá þingmaður sem hefði haft mestar áhyggjur af innleiðingu orkupakkans en að hann væri staddur í útlöndum. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sagði til skammar að ráðherrann hafi gert fjarveru þingmannsins að umræðuefni og spurði hvort það væri tilviljun að umræðan færi fram núna á meðan Sigmundur Davíð væri erlendis. Guðlaugur Þór sagði í svari sínu að tímasetningin hafi verið ákveðin í samráði við forystumenn Miðflokksins. 

Umræða um málið heldur að öllum líkindum áfram næstu daga enda sagðist utanríkisráðherra vonast til þess að umræðan verði löng og að sem flestir taki þátt í henni.