Segir þögult samráð milli Krónunnar og Bónuss

06.09.2018 - 09:46
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir að þögult samráð eigi sér stað á milli láguvöruverslana hér á landi sem komi niður á neytendum. Svigrúm sé til verðlækkana en verslanir notfæri sér smæð markaðarins til að halda verðlagi stöðugu. Auður Alfa var gestur Morgunútvarpsins á Rás2 í morgun.

Hún segir markaðinn hér á landi einkennast af fákeppni. Þó eðlilegt sé að verslanir fylgist með hvor annarri nýti lágvöruverslanir sér þá yfirburðastöðu sem þær hafa á markaðnum með þöglu samráði. 

„Þessir tveir aðilar eru á mjög svipuðum stað hvað varðar verð og þeir sjá það náttúrulega bara í hendi sér að það er þeim í hag að halda verði á ákveðnum stað.  Báðir aðilar gætu verið með verðin lág og þá hagnast þeir fremur lítið, annar aðilinn gæti verið að lækka meira en hinn og þá tapar hinn, þannig að þeir myndu aldrei gera það. Besta útkoman er í raun og veru að þeir séu báðir í hærra laginu. Þó þetta séu lágvöruverslanirnar á Íslandi þá gætu þeir í raun og veru verið að lækka verð meira en þeir eru að gera. “

Hún segir of fáar lágvöruverðsverslanir vera á markaði hér til að raunveruleg samkeppni geti myndast. Tvær stærstu lágvöruverðverslanirnar, Bónus og Krónan, notfæri sér smæð markaðarins. Hún segir þetta óæskilega hegðun en ekki ólöglega. Hegðunin verði til þegar markaðurinn bjóði upp á það. 

„Krónan virðist passa sig á að vera krónu eða tveimur eða þremur, ofar en Bónus, við sjáum það oft í könnunum hjá okkur að það er bara einnar til þriggja krónu munur á vörum. Þeir passa sig að fara ekki í of mikla samkeppni og fara ekki í verðstríð því báðir aðilar myndu tapa á því . Það er þeim báðum til hagsbóta að hafa þetta svona og þeir geta það í krafti stöðu sinnar. “

Besta leiðin til að afhjúpa þögult samráð sé með komu nýs aðila á markaðinn. Þá komi í ljós hvort verðlækkanir séu mögulegar, eins og raunin hafi verið þegar Costco opnaði hér á landi. Áhrif Costco á lækkun vöruverðs hafi þó gengið til baka að miklu leyti.

„Svigrúm er hér á landi til verðlækkana, eins og sást þegar Costco kom til landsins. Ódýrt er að flytja inn vörur og krónan er sterk. Margir þættir eru sem ættu að hafa áhrif til verðlækkunar en verðið hefur samt haldist töluvert stöðugt í mörg ár.“

„Við höfðum viljað sjá meiri verðlækkanir til lengri tíma. Þetta sést mjög skýrt þegar maður skoðar bara vísitöluverð frá hagstofunni að matarverð lækkaði í langflestum flokkum, tók smá dýfu alveg þangað til þeir opnuðu og fram á haust og svo hefur það hækkað aftur og er komið á svipaðan stað nú og það var fyrir, “ segir Auður Alfa. 

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi