Segir stjórnina standa vörð um kyrrstöðu

12.09.2018 - 22:45
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður og þingmaður Viðreisnar. - Mynd: RÚV / RÚV
Innihald stefnuræðu forsætisráðherra var rýrt, að mati Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns og þingmanns Viðreisnar. Hún sagði í umræðum eftir stefnuræðuna í kvöld að „brellumeistarar og umbúðameistarar“ stjórnarflokkanna hafi haft meira að segja en pólitískar hugsjónir og metnaður til umbóta.

Þorgerður gat þess í ræðu sinni að í stefnu ríkisstjórnarinnar væru ákveðnir þættir um loftslagsmál væru spennandi, þó að þeir væru gamalkunnir.

Segir að Vinstri græn tengi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk

Þorgerður Katrín sagði Vinstri græn verða að sætta sig við þá gagnrýni að þau væru millistykkið sem tengir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk saman. „Þrenna sem heldur hlífiskildi yfir þeim sérhagsmunum, sem þingmenn Vinstri grænna hafa reyndar hér í þessum sama ræðustól gagnrýnt, allt að því froðufellandi, í gegnum tíðina.“ Þá sagði Þorgerður Katrín að á síðustu níu mánuðum síðan ríkisstjórnin tók við völdum hafi skýrst betur hvar flokkarnir þrír nái saman. Að hennar mati standa flokkarnir saman um kyrrstöðu og völd.

Gagnrýnir stöðu sjálfstætt starfandi lækna

Um heilbrigðismálin spurði Þorgerður Katrín hvort biðlistarnir verði áfram. „Því hér á landi er fólk í alvörunni á biðlista eftir viðtalstíma til þess að komast á áframhaldandi biðlista vegna aðgerða. Og verða sjúklingar sendir áfram í hrönnum til Svíþjóðar eftir áralanga bið sem veldur frekari heilsuspjöllum og fjártjóni? Þetta er auðvitað brenglað,“ sagði hún og gagnrýndi að ríkisstjórnin skuli ekki leyfa hleypa fleiri sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum á rammasamning og væri ekki að nýta kosti ólíks rekstrarfyrirkomulags.

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi