Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir stjórnina aðeins snúast um sjálfa sig

12.09.2018 - 20:35
Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórnin er kerfisstjórn og hefur enga pólitíska sýn, að dómi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Miðflokksins. Hann sagði í ræðu sinni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld að ríkisstjórnin hafi aðeins verið skipuð til þess að skipta á milli sín ráðherrastólum og koma í veg fyrir að samstarfsflokkarnir geti hrint stefnumálum sínum í framkvæmd.

Þingmaðurinn gagnrýndi jafnlaunavottun sem forsætisráðherra nefndi í stefnuræðu sinni og sagði vottunina stolnar fjarðrir og að Viðreisn hafi komið málinu á rekspöl. „En málið er jafnvitlaust fyrir það. Gölluð og íþyngjandi löggjöf í andstöðu við stjórnarskrá sem ómögulegt er að sjá hvernig eigi að ná tilgangi sínum,“ sagði hann. Þá gagnrýndi hann að á sama tíma og forsætisráðherra tali um jafnlaunavottun sem dæmi um árangur ríkisstjórnarinnar standi ríkisstjórnin í stríði við fjölmennar kvennastéttir.

Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar aukast útgjöld á næsta ári um 55 milljarða og sagði Sigmundur Davíð að sú vðbót renni ekki í að bæta kerfið, heldur fóðra gölluð kerfi og auki á vandann. „Þannig fer meirihluti aukningar til heilbrigðismála í að festa í sessi mistökin við Hringbraut. Ákvörðun sem á eftir að reynast samfélaginu gífurlega dýr.“

Sigmundur Davíð gagnrýndi einnig aukið fjármagn til ráðningar á pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra. „Þetta er lýsandi vegna þess að við erum með ríkisstjórn sem snýst bara um eitt. Hún snýst bara um sjálfa sig.“

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir