Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir stjórnarliða vilja hlutast til um valið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enginn í hópi stjórnarandstæðinga á Alþingi gegnir formennsku eða varaformennsku í þeim þingnefndum sem héldu fyrstu fundi sína í morgun. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að stjórnarandstæðingum hafi staðið til boða formennska í þingnefndum en stjórnarliðar hafi hins vegar viljað hlutast til um það hverjir úr röðum stjórnarandstæðinga yrðu valdir og það gangi ekki upp.

Fyrstu fundir fjögurra þingnefnda voru í morgun. Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokki var kjörinn formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Valgerður Gunnarsdóttir Sjálfstæðisflokki var kjörinn formaður velferðarnefndar og Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um kjörið í velferðarnefndar. Varaformenn nefndanna koma líka úr hópi stjórnarliða. 

Stjórnarandstaðan vildi formennsku í fjórum nefndum en hefði sætt sig við færri, segir þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Hún sætti sig ekki við að stjórnarliðar vildu skipta sér af hverjir úr hópi stjórnarandstæðinga yrðu formenn. „Það náðist ekki samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þessi mál. Stjórnarþingmenn virðast vilja semja við hvern flokk sér og það gengur auðvitað ekki. Við erum í bandalagi,“ segir Oddný G. Harðardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar. „Við gerðum auðvitað kröfu um formennsku í fjórum nefndum eins og svona hlutfall segir til um eða fjöldi þingsæta gæti sagt um. En við vorum alveg tilbúin til að semja um þetta. Og hefðum sætt okkur við þrjár formennskur. En það var ekki í boði nema að stjórnarmeirihlutinn fengi að hafa áhrif á það hvaða fólk við myndum velja í þessi sæti og það auðvitað gengur ekki.“ 

Með nefndarstyrk langt umfram þingstyrk

Vinstri græn létu bóka á öllum fundum nefndanna í morgun óánægju sína með það hvernig stjórnarmeirihlutin hafi haldið á málum er varði skipan í nefndir og kosningu um forystu þeirra. Stjórnin sem nú sitji sé með minnsta mögulega þingmeirihluta, en taki sé styrk í nefndum langt umfram það. Það sé þvert á  yfirlýsingar stjórnarliða um samstarf og góða samvinnu, ný og bætt vinnubrögð. Það sé miður að stjórnarmeirihlutinn skuli notast við vinnubrögð gamaldags valdapólítíkur, segir í bókun VG.

„Þetta er mjög skrýtin staða og auðvitað augljóst að stjórnarandstaðan getur ekki sætt sig við það. Við hefðum viljað bara fá nefndir og síðan hefðum við farið yfir það í okkar hópi hver myndi skipa hvaða nefnd,“ segir Oddný.