Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir staðsetningu Finnafjarðar einstaka

11.04.2019 - 18:56
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Framkvæmdastjóri þýska fyrirtækisins Bremenports segir að staðsetning Finnafjarðar sé einstök og þeir hefðu ekki getað valið betri stað í heiminum fyrir alþjóðlega stórskipahöfn. Við undirritun samninga í dag, um þróun og uppbyggingu í Finnafirði, kom fram að áætlaður undirbúnings- og hönnunarkostnaður verður tæpar 700 milljónir króna.

Það voru fulltrúar Vopnafjarðarhrepps, Langanesbyggðar, þýska fyrirtækisins Bremenports og Verkfræðistofunnar Eflu sem undirrituðu samningana. Nú verða til tvö félög; þróunarfélag um samningagerð og markaðssetningu hafnarinnar og hafnarsamlag um reksturinn.

Núna hefjist markaðssetning hafnarinnar

„Það er búið að vera að rannsaka það hvort það sé rétt sem við héldum í upphafi og það hefur reynst vera rétt að aðstæður eru einstakar.  Og núna þarf bara að markaðssetja höfnina eins og hverja aðra vöru,“ segir Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar hjá verkfræðistofunni Eflu.

Fjárfestar verði komnir í samstarf fyrir árslok

Og Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports, segir mjög mikilvægan áfanga hafa náðst við það að undirrita þessa samninga. Nú sé verið að leita að mögulegum fjárfestum til að kosta þróunarferli hafnarinnar. „Þær viðræður standa nú yfir og ég er sannfærður um að við munum finna fjárfesta fyrir árslok.“ 

Þurfa jafnvirði 700 milljóna króna næstu 3-5 ár

Áætlað er að næstu þrjú til fimm ár fari í hönnun og undirbúning hafnar- og athafnasvæðis í Finnafirði og framkvæmdir gætu hafist árið 2024, ef af verður.  Uppbygging starfseminnar taki svo áratugi. „Næstu 3-5 árin munum við þurfa um 5 milljónir Evra sem mun dekka kostnaðinn við þróunarferlið,“ segir Howe.

Segir þá ekki hafa getað fundið betri staðsetningu

Stórskipahöfn í Finnafirði með 1.300 hektara iðnaðar- og þjónustusvæði er ætlað að tengja saman Asíu, Bandaríkin og Evrópu og stytta alþjóðlegar siglingaleiðir. Fjölmörg fyrirtæki í hafnsækinni starfsemi horfi til siglinga um Norðurslóðir. „Og þess vegna er þessi staðsetning einstök,“ segir Howie. „Við gætum ekki fundið neinn betri stað.“

Mjög hröð þróun í siglingum um Norðurslóðir

„Við megum ekki gleyma því að það eru fyrirtæki í hafnsækinni starfsemi sem eru verulega að horfa til þess tækifæris að sigla um Norðurslóðir. Og það eru náttúrulega stóru skipafélögin,“ segir Hafsteinn. „Og á síðasta ári fór stærsta skipafélag heims með fyrsta gámaflutningaskipið yfir Norðurslóðir. Og þeir sömu aðilar sogðu okkur árið 2010 að það myndi kannski gerast 2050. Þannig að við sjáum hvað tímarnir breytast.“