Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir spjótum beint að sér með mannorðsmorði

04.06.2016 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að formenn Framsóknarflokksins hafi alla tíð sætt persónulegum árásum, spjótum hafi verið beint að honum með mannorðsmorði. Hann segir að sér hafi liðið hræðilega í kjölfar Kastljóssþáttarins þar sem óþokkabragð hafi heppnast.

Sigmundur Davíð flutti ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í hádeginu, í fyrsta sinn frá því hann sagði af sér forsætisráðherraembætti. Hann sagði ræðuna að þessu sinni vera óhefðbundna því hann talaði meira um sjálfan sig. Hann byrjaði á því að rifja upp árangur ríkisstjórnarinnar sem hann sagði einstakan. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hann sagði að formenn Framsóknarflokksins hefðu alla tíð sætt árásum en ekki á grundvelli málefna heldur öðru og þeir jafnvel sakaðir um geðveiki og nefndi Jónas frá Hriflu og sjálfan sig í því samhengi. Hann talaði um persónulegar árásir sem hann hefði sætt í stjórnmálum og því hvernig honum hafi liðið í kjölfar Kastljóssþáttarins og viðtalsins við sænska sjónvarpið. „Frá því ég hóf þátttöku í stjórnmálum, vikuna á eftir, hef ég búið við það að menn hafa talið ástæðu til að skrifa hreint ótrúlega hluti um mig. Beina spjótum síinum að persónu minni, yfirleitt með einhverjum kenningum sem að standast ekki skoðun. Það hefur verið reynt eins og með svo marga forvera mína, ótal sinnum að ráða mig af dögum, ekki í eiginlegri merkingu, heldur með mannorðsmorði,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni. 

Mynd með færslu
Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag.  Mynd: RÚV

Hann sagði atburðarásina sem sýnd var í Kastljóssþættinum vera óþokkabragð sem hafi heppnast, sérstaklega hafi hann tekið þetta nærri sér vegna fjölskyldu sinn og sérstaklega konu sinnar. „Mér líður að sjálfsögðu og hefur liðið hræðilega yfir að sjá ekki við þessari árás. Ég er búinn að hitta ykkur mörg síðustu tvær vikurnar eða svo á mjög góðum fundum og mér hefur þótt afskaplega vænt um að finna þann mikla stuðning og styrk sem þið sýnið mér á þeim fundum.“

Sigmundur Davíð sagðist hafa fundið fyrir því hvað málið hefði tekið á Framsóknarmenn. „Hvað þetta hefur verið erfitt fyrir ykkur. Hversu margir hafa fundið til með mér, flokknum og að sjálfsögðu bara liðið illa sjálfum.“ 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV