Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Segir söluaukningu á tóbaki dapurlega

10.07.2014 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir það mjög slæmt að sala á tóbaki fari vaxandi. Sala á neftóbaki jókst um 36% á fyrstu sex mánuðum þessa árs, samanborið við sama tímabil í fyrra.

Það er dapurlegt að heyra af því vegna þess að árangurinn sem Íslendingar hafa náð á síðustu árum í tóbaksvörnum hefur vakið eftirtekt og er tvímælalaust af hinu góða. Sérstaklega meðal yngri aldurshópa. Það er að sjálfsögðu dapurlegt að horfa upp á það ef að svo er - að við séum að sigla inn í einhverja aðra veröld núna.

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við fréttum um að notkun munntóbaks færist sífellt í vöxt meðal ungra karlmanna hér á landi. Þar sem munntóbak er hins vegar bannað með lögum nota þeir neftóbak í staðinn, sem skýrir mikla söluaukningu á neftóbaki. Aðstoðarforstjóri ÁTVR sagði í kvöldfréttum sjónvarps, að stjórnvöld þyrftu að ákveða hvort þau ætluðu að leyfa munntóbak, eða banna neftóbak, sem notað er sem munntóbak.

Kristján Þór er ekki sannfærður um það. Ég get alveg sagt það sjálfur að ég er frekar vantrúaður á boð og bönn í þessum efnum,“ segir hann og bætir við að frekar ætti að mæta kostnaði sem aukin sjúkdómabyrði fylgir með verðlagningu á skaðlegum vörum. „Í grundvallaratriðum er þetta þannig að það ættu að gilda sömu reglur um notkun á svona efnum, sama í hvaða formi það er. Hvort sem við erum að taka þetta í nösina sem neftóbak eða í vörina sem munntóbak,“ segir Kristján Þór.

Aðspurður um hvort eðlilegt sé að munntóbak sé bannað á Íslandi líkt og innan ESB, þótt annað tóbak sé leyft hér og Ísland sé ekki innan ESB, svarar Kristján Þór því að málið sé á vissan hátt sambærilegt þeirri spurningu sem Íslendingar stóðu frammi fyrir fyrir rúmum tveimur áratugum. Þá hafi verið ákveðið að leyfa sölu á bjór, en ekki bara sterku víni. „Það er miklu eðlilegra að vera með þetta allt undir sama hatti,“ segir Kristján Þór. „Í grundvallaratriðum er þetta þannig að það ættu að gilda sömu reglur um notkun á svona efnum, sama í hvaða formi það er. Hvort sem við erum að taka þetta í nösina sem neftóbak eða í vörina sem munntóbak.“