Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Segir snúið út úr lóðamálinu

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sem skipar annað sæti á lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina í Reykjavík, segir að frambjóðendur annarra flokka snúi umræðu um úthlutun lóðar undir Mosku í allt annað en hún snúist um í raun og veru.

„Það sem Sveinbjörg sagði, og ég hef staðfest líka í viðtölum, er að við erum á móti því að gefa trúfélögum ókeypis lóðir í Reykjavík. Það hefur með öll trúfélög að gera. Á meðan ástandið er þannig að ekki eru til lóðir til að byggja húsnæði fyrir fólk og fólk er á götunni. Við höfum einnig sagt líka að staðsetning moskunnar er afleit. Þessi staðsetning er akkúrat á mjög áberandi stað í borginni og þetta hefur ekkert verið rætt.“

Guðfinna gagnrýnir að söfnuður múslima sækist eftir stærri lóð en aðrir söfnuðir. „Þetta er 200 til 300 manna söfnuður sem vildi fá miklu stærri lóð en hinir söfnuðurnir vildu fá sem eru mun fjölmennari. Afhverju á þessi tiltekni fámenni söfnuður hér á Íslandi að fá stóra lóð á einum mest áberandi stað í bænum. Á meðan segir þú að það eigi að fjölga hér félagslegu húsnæði en þú vilt frekar að einhverjum 200-300manna hópi sé gefin lóð.“

Þorvaldur Þorvaldsson, oddviti Alþýðufylkingarinnar, segir langsótt að setja þetta fram sem tvo valkosti. „Ég er ekki viss um að það yrði byggt búðarhúsnæði á þessum stað að öðrum kosti. Ég er sjálfur í ásatrúarfélaginu og það tók okkur allmörg ár að fá lóð í Öskjuhlíðinni sem nú er verið að undirbúa hofbyggingu. Þorvaldur telur óraunhæft að setja þetta upp sem tvo valkosti sem vegist á.  „Það að draga til baka moskulóðina fæði af sér svo og svo mikið af félagslegu húsnæði. Það er náttúrlega bara absúrd.“