Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir Skúla taka afstöðu í dómsmáli gegn sér

25.11.2017 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari segir að ummæli Skúla Magnússonar formanns Dómarafélags Íslands, um að hann sýni því skilning að Benedikt Bogason hæstaréttardómari höfði mál gegn sér, feli í sér afstöðu með Benedikt í málinu. Það sé gróft brot á siðareglum dómara.

Skúli sagði í fréttum RÚV í gærkvöld að ef óhróður um dómara er ekki hreinsaður upp þurfi menn að beita þeim ráðum sem lögin heimila. Því sýni hann því skilning að gripið sé til málshöfðunar í slíkum tilvikum og vísaði þar í málshöfðun Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara á hendur Jóni Steinari Gunnlaugssyni vegna ásakana um að hann og fleiri hæstaréttardómarar hafi framið dómsmorð.

Jón Steinar segir að með þessu sé Skúli að taka afstöðu með Benedikt í dómsmálinu. „Svo ég taki mér nú hans orð í munn þá hef ég aldrei sé grófara brot á siðareglum dómara en þetta, að formaður Dómarafélagsins sé að tjá sig opinberlega um afstöðu sína til dómsmáls sem þegar hefur verið höfðað. Það er eins og hann sé að gefa fyrirmæli til væntanlegs dómara í málinu.“

Það sé svipað og Skúli saki Jón um og því sé þetta tvískinnungur. „Fyrir utan það að formaður Dómarafélagsins er með þessum ummælum að gera það erfiðara en ella að finna hlutlausan dómara sem getur dæmt í þessu máli.“

Jón Steinar segir að hætta sé á að dómarar taki þetta sem ábendingu til sín um hvernig eigi að dæma í málinu. „Hann hefur að minnsta kosti meira ráðandi stöðu gagnvart þeim þegar hann hefur svona ummæli en ég hafði gagnvart samdómurum mínum í Hæstarétti sem ég hafði auðvitað enga ráðandi stöðu gagnvart.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV