Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir Sigmund þurfa að fara yfir sinn þátt

03.04.2016 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, telur augljóst að fara þurfi vandlega yfir umfjöllun Kastljóss og Reykjavik Media um Panamaskjölin svokölluðu. Hann segir hins vegar að fullt samræmi sé í frásögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, og í umfjöllun Kastljóss. Forsætisráðherra þurfi hins vegar að fara betur yfir sinn þátt málsins.

Þetta kom fram í viðtali við Guðlaug Þór Þórðarson í beinni útsendingu í fréttum Sjónvarps en þingmenn stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar horfðu á Kastljós í kvöld í Alþingishúsinu.

Guðlaugur Þór segir augljóst að mikil vinna hafi verið lögð í þáttinn. „Hér eru mjög stór mál og það er augljóst að við þurfum að fara vandlega yfir þau. Ég ætla að horfa á þáttinn aftur og ég held að flestir muni gera það.“

Aðspurður um mál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, segir Guðlaugur að umfjöllun þáttarins gefi honum fullt tilefni til að fara betur yfir sín mál. Hann þurfi að fara yfir sinn þátt málsins.