Segir sig úr Framsókn eftir kjör Sigmundar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhannes Gunnar Bjarnason, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Akureyri í átta ár og fyrrverandi oddviti flokksins þar, hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum eftir niðurstöðuna á tvöföldu kjördæmisþingi flokksins í Mývatnssveit í dag. Þar vann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, afgerandi sigur sem oddviti flokksins í komandi þingkosningum.

Jóhannes Gunnar greinir frá þessari ákvörðun sinni á Facebook-síðu sinni. Hann telur sig ekki eiga pólitíska samleið með fólkinu sem kaus Sigmund Davíð og telur það umhugsunarefni hvernig yfirgnæfandi meirihluti kjördæmisþingsfulltrúa kjósi að líta fram hjá „herfilegum dómgreindarbresti núverandi formanns sem geymdi leyndarmál suður í höfum og ætlaði aldrei að greina frá auði sínum þar var í umsýslu Tortóla.“

Jóhannes Gunnar hefur verið í hópi þeirra Framsóknarmanna sem töldu rétt að Sigmundur segði af sér þing- og formennsku eftir að Wintris-málið kom upp. Hann sagði í apríl á þessu ári að málin hefðu þróast þannig að Sigmundi væri ekki lengur sætt sem formanni flokksins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi