Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir siðbótina hafa verið afturför

Mynd: RÚV / RÚV

Segir siðbótina hafa verið afturför

19.10.2017 - 14:06

Höfundar

Fornleifafræðingurinn Steinunn Kristjánsdóttir segir kaþólsku klaustrin á Íslandi hafa verið feikilega merkilegar vísinda- og menningarstofnanir og það hafi verið mikil afturför þegar þau lögðust af við siðbótina.

Þetta kemur fram í bók hennar Leitin að klaustrunum sem er afrakstur áralangra rannsókna hennar á fornleifum. „Ég hóf þessa leit og það var ekkert undanskilið, við leituðum að rústum, gripum og öllu sem hægt var að finna. Niðurstaða mín er sú að þetta hafi verið gríðarlega mikilvægar stofnanir,“ segir Steinunn í samtali við Egil Helgason í Kiljunni. Hún segir að í klaustrunum hafi verið mikil starfsemi; vísindastarf, lækningar, garðrækt, skólahald, iðnmenntun, bókagerð og vefnaður.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bók Steinunnar er afrakstur marga ára rannsóknarvinnu á fornminjum.

Í rannsóknum sínum komst hún að því að íslensku klaustrin voru 14 þegar mest var, en níu voru starfandi við siðaskiptin. „Þegar þeim er lokað hurfu allir spítalar úr landinu, og það kemur enginn annar fyrr en 100 árum síðar,“ segir Steinunn. „Það eru engir skólar fyrir konur eða almenning, heldur bara yfirstéttarpilta.“

Þá hafi réttarfar breyst til verri vegar, og teknar upp líkamlegar refsingar og dauðarefsingar verða algengar, ein á ári um langt skeið. „Þess vegna er ég ósátt við að nota hugtakið siðbót, öðru nær, ég tel að hér hafi ríkt glundroði lengi á eftir,“ segir Steinunn og bætir við að þetta skeið hafi hafist með eyðileggingu Viðeyjarklausturs 1539. „Það er beinlínis rifið og fólk drepið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Steinunn komst að því að mikið af menningarverðmætum úr klaustrunum hafi glatast eða verið eyðilagt. „Það eru bókabrennur og líkneski brotin og eyðilögð. Annað sem þótti verðmætt var flutt úr landi.“ Steinunn segir ekkert hafa komið í staðinn fyrir klaustrin og ófremdarástand myndast eftir að þeim var lokað. Sum klaustur voru með allt 100 manns í vinnu sem fóru á vergang, talað var um förumannaplágu. Þá hafi staða kvenna versnað við það að nunnuklaustrunum tveimur var lokað. „Það eru heimildir fyrir því að það hafi verið kvennathvörf í nunnuklaustrunum á kaþólskum tíma.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rústirnar af Skriðuklaustri.

Klaustrin söfnuðu vissulega að sér auð og eitthvað var um spillingu innan þeirra, en Steinunn telur þó að vegna mikilvægs hlutverks þeirra sé ekki rétt að tala um siðaskiptin sem umbætur. Það sem gerist síðan er að Danakonungur tekur yfir eignir klaustranna og umboðsmenn hans setjast á staðina. „Þjóðkirkjan í dag er náttúrulega rekin fyrir þessar jarðir, sem voru teknar yfir við siðaskiptin.“