Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir sameiningu skapa mörg tækifæri

25.03.2018 - 12:07
Mynd með færslu
Breiðdalsvík. Mynd: - - breiddalsvik,is
Sameining Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í íbúakosningu í gær. Oddviti Breiðdalshrepps fagnar niðurstöðunni og segir að hún muni skapa mörg tækifæri í hreppnum.

Í Fjarðabyggð, þar sem rúmlega 1.200 manns greiddu atkvæði, sögðu nær 87 prósent já. Í Breiðdalshreppi kusu 100 manns, og þar af sögðu 85 prósent já. Kjörsókn í Fjarðabyggð var rúm 36 prósent, en rúm 64 prósent í Breiðdalshreppi. Í sveitarstjórnarkosningunum í maí verður því kosin stjórn í nýju, sameinuðu sveitarfélagi. Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, er ánægður með úrslit kosninganna.

„Ég fagna þessari niðurstöðu mjög og þetta er eiginlega betra en maður þorði að vona. Það er mjög mikilvægt að það sé svona mikil samstaða um þetta í báðum byggðarlögunum. Og við væntum góðs af þessari sameiningu sem mun örugglega skapa mjög mörg tækifæri, til dæmis hér í Breiðdal,“ segir Hákon. Þannig verða skólar á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík sameinaðir sem Hákon segir að hafi ákveðið hagræði í för með sér. Þá fylgja sameiningunni greiðslur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem gætu numið tæpum 700 milljónum á fimm árum, mest til að lækka skuldir Fjarðabyggðar.

„Og nú fáum við fjármagn í gegnum jöfnunarsjóðinn til þess að fara í svokallaða innviðauppbyggingu sem við leggjum mjög mikla áherslu á og mun örugglega skapa mjög mikla möguleika hér eftir að sú innviðauppbygging hefur átt sér stað.“

„Gæfuspor“

Rúmlega 180 manns búa í Breiðdalshreppi og Hákon segir þetta sögulega stund fyrir þetta litla sveitarfélag.

„Þetta er söguleg stund að því leyti að þetta verður ekki lengur sjálfstætt sveitarfélag, Breiðdalur. En við fögnum þessu og horfum björtum augum til framtíðar og teljum þetta gæfuspor.“

Nú er stutt í sveitarstjórnarkosningar, þarf eitthvað að breyta listum fyrir kosningarnar í ljósi þessarar niðurstöðu?

„Ég geri nú ekki ráð fyrir því. Það er fastmótað kerfi hjá Fjarðabyggð, þar eru framboðslistar og flokkar sem bjóða fram og ég geri bara ráð fyrir að þeir bæti Breiðdælingum inn á sína lista í einhver sæti,“ segir Hákon.