Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir sameiningu liggja beinast við

Helgafell við Stykkishólm, Helgafellssveit
 Mynd: Christian Bickel - Wikipedia
Hilmar Hallvarðsson, oddviti í Helgafellssveit, er þeirrar skoðunar að það sé út í hött að reka stjórnsýslu fyrir 50-60 manns. Hann segir að sameining við Stykkishólm liggi beinast við en viðurkennir að skiptar skoðanir séu um sameiningu meðal íbúa.

Skráður íbúafjöldi í Helgafellssveit var 58 manns í upphafi árs. Formlegar viðræður um sameiningu hafa staðið milli Stykkishólms, Grundarfjarðarbæjar og Helgafellssveitar. Grundarfjarðarbær dró sig út úr viðræðunum.

Engin önnur stór mál hafa verið í umræðunni fyrir komandi kjörtímabil að sögn Hilmars enda hafi nýlega verið lokið við kostnaðarsama lagningu ljósleiðara. Sveitarfélagið bar allan kostnað af framkvæmdinni. Hilmar segir að það hafi verið stór biti fyrir svo fámennt sveitarfélag. Enginn rekstrarafgangur varð hjá sveitarfélaginu og telur Hilmar það, meðal annars, grundvöll fyrir sameiningu. 

Sveitarstjórnarkosningar verða óbundnar í Helgafellssveit, eins og er þegar enginn listi berst til framboðs. Þá eru allir kjósendur í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrirfram skorast undan því. Hilmar hefur ekki beðist undan kjöri.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður