Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir RÚV hafa eytt um efni fram

29.10.2015 - 15:56
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ríkisútvarpið hefur eytt um efni fram á undanförnum árum. Meiri samkeppni og harðari slagur á auglýsingamarkaði hefur haft áhrif. Þetta segir Eyþór Arnalds, formaður starfshóps sem var skipaður til að skoða og greina rekstur Ríkisútvarpsins. Skýrslan var birt í dag.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að rekstur RÚV ohf. hafi ekki verið sjálfbær frá árinu 2007 og gjöld hafi verið meiri en tekjur á tímabilinu í heild. Hallarekstur hafi verið fjármagnaður með auknu ríkisframlagi, lántökum og frestun afborgana lána. 

RÚV sníði sér stakk eftir vexti
Eyþór segir mikilvægt að stofnunin búi við vissu um fjárhag. „Hún verður líka að sníða sér stakk eftir vexti og koma sér ekki í skuldir vegna taprekstrar. Hún verður líka að huga að breyttu neytendamynstri, sérstaklega hjá ungu fólki og koma til móts við það eins og hægt er,“ segir Eyþór í viðtali við fréttastofu í dag. 

Hann segir það ekki hlutverk starfshópsins að gera aðgerðaráætlun fyrir Ríkisútvarpið.

RÚV eytt um efni fram
„Við erum hinsvegar að birta staðreyndir byggðar á tölum og draga fram þá mynd sem er. Ég held að það sé mikilvægt að bæði stjórnendur og almenningur átti sig hver staðan er og það verði gripið til þeirra aðgerða sem þörf er á, eftir því hver hún er,“ segir Eyþór. Starfshópurinn hafi sýnt fram á hvað hafi farið aflaga á liðnum árum og hverju staðan sé jafn erfið og raun ber vitni, bæði hvað varðar tekjur og þróun á áhorfi.

„Stofnunin hefur eytt um efni fram, það sýna tölurnar. Það hefur verið taprekstur og tekjur hafa ekki skilað sér að fullu eins og væntingar voru til. Það er breytt umhverfi og meiri samkeppni. Þannig að það eru blikur á því að það verði meiri slagur um auglýsingatekjur líka.“

Rekstur RÚV og 365 borinn saman
Aðspurður um samanburðinn sem gerður er á rekstri RÚV og 365 miðla, sem byggður er á ársreikningum RÚV og hluta upplýsinga úr árseikningum 365, segir Eyþór vera forvitnilegan.

„Þessi samanburður er gerður á fermetrafjölda, starfsmannafjölda, útgjöldum og tekjum. Við teljum að þetta sé fróðlegt þótt þetta sé ekki algilt. Við erum að bera saman tölur frá útlöndum en vildum líka finna viðmið á Íslandi," segir Eyþór, en sambærilegur rekstur RÚV og 365 var borinn saman.

Eyþór segir samanburðinn við 365 hafa tvímælalaust gildi þrátt fyrir að enginn verðmiði sé settur á almannaþjónustuhlutverk RÚV. „Það er enginn verðmiði á almannaþjónustuhlutverkið enda er hann ekki skilgreindur sérstaklega í bókhaldi RÚV og ég held að það væri gott að draga það betur fram. Og eitt af tækjunum er þjónustusamningur og ég held að það væri gott að skerpa á honum.“