Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir Rússa tilneydda til að vígbúast

20.02.2019 - 18:41
Erlent · Bandaríkin · NATO · Rússland
Mynd með færslu
 Mynd:
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, varaði Bandaríkjamenn við því í dag að setja upp flugskeyti í Evrópu, og sagðist líta á slíkt sem mikla ógn. Þetta kom fram í stefnuræðu hans í rússneska þinginu. Ræðan var 90 mínútna löng og kvaðst hann ætla að bæta hag barnafjölskyldna.

Bandaríkjamenn og síðar Rússar sögðu sig frá samningi um takmörkun meðaldrægra kjarnorkufluga í byrjun mánaðarins. Samningurinn var gerður árið 1987 og þótti marka mikil tímamót eftir spennu áranna á undan þegar kalda stríðið stóð yfir. 

NATO telur hótanirnar „óásættanlegar“

Rússar eru tilneyddir til að koma upp nýjum tegundum af vopnum sem verða ekki aðeins beint að svæðum þar sem ógnir eru heldur einnig að svæðum þar sem ákvarðanir um notkun flugskeyta gegn okkur eru teknar, sagði Pútín í ræðunni í dag, sem var 90 mínútna löng. Rússneska fréttastofan TASS hefur eftir talsmanni NATO að hótanir rússneskra stjórnvalda séu óásættanlegar. NATO standi með öllum aðildarríkjum og verji þau og vilji ekki annað vopnakapphlaup. 

Ætlar að bæta hag almennings í Rússlandi

Forsetinn vék máli sínu einnig að stöðu almennings í Rússlandi í ræðunni í dag. Hann sagði að það væri sorgleg staðreynd að 19 milljónir Rússar lifi undir fátæktarmörkum. Því ætli ríkið að breyta sem fyrst. Hann boðaði aukinn stuðning við barnafjölskyldur og benti á að fæðingartíðni í landinu hafi lækkað um 11 prósent síðan árið 2017. 

Pútín hefur verið forseti og forsætisráðherra landsins í rúm 18 ár. Vinsældir hans hafa dvínað eftir að hann kynnti hugmyndir sínar um hækkun eftirlaunaaldurs í fyrra. Hann naut stuðnings 76 prósenta Rússa í forsetakosningum í fyrra en samkvæmt nýlegri könnun styðja nú um 64 prósent forsetann.