Segir reynslu innflytjenda ógeðfellda

alþingismaður, leikskólastjóri
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar er í forsvari fyrir hóp sem er vettvangur fyrir konur sem eru innflytjendur hér á landi að deila sögum af kynferðislegri áreitni, ofbeldi og kynjamisrétti undir merkjum Metoo hreyfingarinnar. „Sögurnar sem konur eru að deila þarna inni eru ógeðfelldar, þær eru litaðar af fordómum og niðurrifi,“ segir Nichole. Sögurnar verða birtar á næstu dögum.

„Til dæmis er í hópnum kona sem var skömmuð af annarri konu fyrir að vera í ofbeldissambandi í staðinn fyrir að hringja í lögregluna og hjálpa henni. Í hópnum eru öflugar konur og þær vilja gera mikið, ég vil leiða þær áfram í því,“ segir Nichole sem var gestur í þættinum Sunnudagssögur á Rás 2 í gær.

Nichole finnst Íslendingar vera lokuð þjóð. Henni fannst erfitt að vera innflytjandi fyrstu árin á Íslandi. „Mér fannst ömurlegt fyrstu þrjú árin sem innflytjandi, ég passaði ekkert inn, ég var rosalega einangruð. Í dag er ég búin að búa hérna í 17 ár og ég á tvær alvöru vinkonur. Ég ætla ekki að fara svo langt að segja að Íslendingar séu ekki gott fólk, þið eruð það. En þegar einhver kemur inn eins og ég sem innflytjandi sem þarf verulega á einhverjum til að hlúa að þörfum mínum, þá var erfitt að mynda tengsl. Það eiga allir sínar æskuvinkonur. Það var ekki pláss fyrir þessa nýju skrítnu bandarísku konu,“ segir Nichole. 

„Það tók tíma fyrir mig að sætta mig við það að ég ætti fullt af kunningjum. Það ætti ekkert að vera mín markmið að eiga bestu vinkonu sem var þar fyrir mig alltaf. Maðurinn minn þurfti því miður að vera besta vinkona mín og eiginmaður, sem getur reynt á hjónaband stundum. Ég þurfti að læra að sætta mig við það og efla það,“ segir Nichole.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi