Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir rangt talið fram vegna Wintris

03.10.2017 - 23:25
Skattalögfræðingur telur að aflandsfélagið Wintris hafi verið stofnað til að komast hjá hærri sköttum. Í úrskurði Yfirskattanefndar komi fram að horft hafi verið fram hjá tilvist félagsins. 

Ásmundur G. Vilhjálmsson lögmaður og sérfræðingur í skattarétti og aðjúnkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur kynnt sér úrskurð Yfirskattanefndar í máli Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur. 

Rúmum mánuði eftir að upplýst var að Wintris væri til óskuðu þau hjónin eftir endurákvörðun hjá Ríkisskattstjóra. Þau undu úrskurði hans en ekki því leyti að þau mættu ekki nýta sér gengistap enda félagið gert upp í íslenskum krónum. Yfirskattanefnd tók undir með þeim nú í september.

Ásmundur segir að í þessu tilfelli hafi hjón ákveðið að stofna fé í lágskattaríki: „Og yfirfæra til þess þá eignir sínar í þeirri von að sleppa við eða komast hjá að greiða eins háa skatta og þau hefðu þurft að gera ef að peningarnir hefðu verið staðsettir hér á landi.“

Áttu þá við, já, einhvers konar dulúð?
„Já, jafnvel enda kemur það fram í úrskurðinum að við framtalsskil þá hafi verið horft fram hjá þessu félagi og látið líta svo út eins og að það væri ekki til.“

Ásmundur segir erfitt að átta sig á því út frá úrskurði yfirskattanefndar hvort þau greiði meira eða minna en áður. Í úrskurðinum koma ekki fram tölurnar úr úrskurði Ríkisskattstjóra sem þau undu. Ekki sé þó  ólíklegt að auðlegðarskattur hafi verið hækkaður. Ásmundur segir að úrskurður Yfirskattanefndar sé réttur og samkvæmt lögum. En samkvæmt þeim sé litið á CFC félög, aflandsfélög, sem íslensk fyrirtæki þannig að hagnað og tap eigi að gera upp í samræmi við íslenskar reglur. Því breytist skattprósentan. 

„Þetta íslenska fyrirtæki sem um ræðir er hins vegar ekki sjálfstæður skattaaðili þannig lagað séð. Þannig að afkoman hún telst til tekna hjá hlutaðeigandi eins og atvinnurekstrartekjur væru, ekki fjármagnstekjur, miðað við hlutdeild þeirra í fyrirtækinu þ.a. eigi þau fyrirtækið 100% þá telst öll afkoma til tekna hjá þeim og skatturinn er ekki 10, 20 heldur 36% til 46%.“

Þessi gögn sem liggja frammi sem við höfum þýða þau að hjónin hafi ekki talið rétt fram?
„Ja, þau töldu ekki fram í samræmi við lögin og þar af leiðandi er ekkert óeðlilegt að þau hafi ekki talið rétt fram. En það getur hafa stafað af einhverjum afsakanlegum misskilningi af þeirra hálfu að þau hafi ekki vitað betur þó að það í rauninni verði að telja ólíklegt að svo hafi verið.“