Segir Pútín tákn stöðugleika í hugum Rússa

16.03.2018 - 06:08
Mynd með færslu
 Mynd: epa
Rússar ganga til forsetakosninga á sunnudag. Vladimír Pútín hefur verið við völd síðan árið 2000 og engar líkur eru taldar á að breyting verði á. Mannréttindasérfræðingurinn Dmitry Dubrovsky segir að fylgi við Pútín stafi ekki endilega af vinsældum hans, heldur sé forsetinn tákn um stöðugleika. Á valdatíma Pútíns hefur verið þrengt að starfsemi frjálsra félagasamtaka, til dæmis mannréttindasamtaka, og hafa mörg þeirra lagt upp laupana.

Boris Jeltsín, fyrrum forseti Rússlands, tilkynnti afsögn sína á gamlárskvöld árið 1999. Í ágúst það ár hafði hann vikið forsætisráðherra landsins frá og Pútín tók við. Þegar Jeltsín tilkynnti afsögn sína hafði heimsbyggðin ekki hugmynd um hver þessi Vladimír Vladimírovits Pútín var. Það átti fljótlega eftir að breytast. Nú hefur Pútín verið forseti í þrjú kjörtímabil og forsætisráðherra eitt kjörtímabil, ef frá eru taldir fyrstu mánuðir hans í embætti árið 1999.

Almennt telur fólk kjörin betri nú en á 10. áratugnum

Dmitry Dubrovsky, mannréttindasérfræðingur og meðlimur í mannréttindaráði Sankti-Pétursborgar í Rússlandi, segir stöðuna í landinu á margan hátt slæma en fólkið sé þolinmótt. Engar líkur séu á öðru en að Pútín fái flest atkvæði í kosningunum á sunnudag. „Fólk er þolinmótt og það er athyglisvert. Fólk er ekki reitt en ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt. Kosningarnar eru fram undan og fólk á eftir að kjósa kyrrstöðu,“ segir Dubrovsky.

Mikil efnahagskreppa var í Rússlandi á tíunda áratugnum, á fyrstu árunum eftir hrun Sovétríkjanna. Dubrovsky segir að fólk beri stöðu sína í dag saman við þá tíma þegar mikill óstöðugleiki og óvissa var ríkjandi. Staðan í dag sé vissulega betri, þrátt fyrir að bilið á milli fátækra og ríkra hafi breikkað og að laun almennings séu ekkert til að hrópa húrra fyrir. „Það eru ekki allir Rússar ánægðir með Pútín en fólk er almennt þokkalega ánægt. Staðan hér var mjög slæm á 10. áratugnum. Fólk vill ekki slíka óvissu og óstöðugleika áfram og því má segja að Pútín sé táknmynd stöðugleika í hugum fólks.“

Segir Pútín í fyrstu hafa sýnt félagasamtökum skilning

Staða mannréttinda í Rússlandi hefur ítrekað ratað í heimsfréttirnar á síðustu árum. Þar á meðal staða hinsegin fólks og kvenna. Frjálsum félagasamtökum hefur með lagasetningu verið gert mjög erfitt um vik að starfa í Rússlandi. Dubrovsky bendir á að þannig hafi það ekki alltaf verið á valdatíma Pútíns. Á fyrstu árum sínum í embætti hafi hann verið jákvæður í garð frjálsra félagasamtaka. Hann hafi sömuleiðis stefnt að því að vera í nánara sambandi við Evrópuríki.

Upp úr 2007 hafi orðið breyting á. Pútín hafi metið það svo að hagsmunir Evrópuríkja og Rússlands væru ekki þeir sömu. Sömuleiðis hafi ríki í Evrópu ekki beitt Rússa miklum þrýstingi til að vinna að lýðræðisumbótum. Viðhorfið hjá leiðtogum ríkja Evrópu hafi verið að þetta myndi líklega bara smám saman koma hjá Rússum. Dubrovsky bendir þó á að Evrópuríkin hafi beitt sér gegn grimmdarverkum rússneska hersins í Tétsníu á fyrsta áratug þessarar aldar.

Gert að skrá sig á ný og lúta strangari reglum

Fyrst fór að þrengja að starfsemi frjálsra félagasamtaka í landinu upp úr 2007. Þá var öllum samtökum gert að skrá sig á ný. Mikil og flókin skriffinska gerði mörgum erfitt fyrir. Aðeins þriðjungur félagasamtaka hélt starfsemi áfram eftir lagabreytinguna, að sögn Dubrovsky.

Innan sumra samtaka var það samþykkt að starfa undir stjórn ríkisins og þiggja þaðan fjárframlög. Afleiðingarnar voru þær að þau samtök hættu að gagnrýna stjórnvöld.

Mörg þeirra félaga sem kusu að vera óháð stjórnvöldum þiggja fjárstyrki frá útlöndum. Árið 2012 voru samþykkt ný lög í Rússlandi sem fela í sér að ef frjáls félagasamtök þiggja fjármuni frá öðrum löndum, verði þau skráð sem „erlendir erindrekar.“ Þannig hafa baráttusamtök fyrir réttindum hinsegin fólks verið skráð, önnur mannréttindasamtök, umhverfisverndarsamtök og stofnanir sem rannsaka kynjajafnrétti og kosningahegðun.

Árið 2015 fékk upplýsingaskrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Sankti-Pétursborg bréf frá saksóknara þess efnis að grunur léki á að með starfsemi hennar hafi lög um frjáls félagasamtök verið brotin. Skrifstofuna þyrfti að skrá sem erlendan erindreka. Ráðherranefndin ákvað stuttu síðar að loka skrifstofunni.

79 félög í Rússlandi skráð sem erlendir erindrekar 

Samkvæmt mannréttindasamtökunum Human Rights Watch eru nú 79 félög á lista sem erlendir erindrekar í Rússlandi, sem setur starfsemi þeirra þröng skilyrði. Fleiri félagasamtök hafa verið skráð þannig en síðan hætt að taka við fé frá útlöndum og eftir það verið skráð á ný, ekki sem erlendir erindrekar. Human Rights Watch segir að orðið erlendur erindreki þýði njósnari eða svikari, í hugum Rússa. Félögum sem eru skráð á þennan hátt ber að merkja allt efni sem þau senda frá sér þannig að skýrt komi fram að þau séu skráð sem erlendur erindreki.

Dubruvsky telur að Pútín óttist áhrif annarra ríkja í landinu, þiggi félagasamtök fjárstuðning að utan. Þess vegna séu lögin um starfsemi þeirra svo ströng. Hann segir erfitt að fá fólk til að starfa með félagasamtökum þegar viðurlögin við brotum á lögum um frjáls félagasamtök séu fangelsisvist og sektir. Dæmi séu um að baráttufólk fyrir mannréttindum hafi yfirgefið Rússland þar sem það óttist að vera hneppt í varðhald.

Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Dmitry Dubrovsky, háskólakennari í mannréttindum og meðlimur í mannréttindaráði Sankti Pétursborgar.

 

Á ekki von á auknum mannréttindum

Dubrovsky er svartsýnn á aukin mannréttindi á næstu misserum, þegar reglur um félög sem berjast fyrir þeim séu svo strangar. Hann á ekki von á að lögunum verði breytt og er þeirrar skoðunar að umhverfið fyrir starfsemi félagasamtaka nú sé álíka þróað og það var í byrjun 9. áratugarins, þegar Brésnév var enn leiðtogi Sovétríkjanna. Baráttufólk fyrir mannréttindum geti ekki barist fyrir umbótum heldur hafi nóg með að aðstoða fólk sem verði fyrir mannréttindabrotum. „Það er engin von á þróun í þessum málum. Við erum bara að reyna að hjálpa sjálfum okkur.“

Þingmaður gerði grín að ásökunum um áreitni

Dubrovsky tekur metoo-byltinguna sem dæmi um stöðu mannréttinda í landinu. Á dögunum greindu þrjár fjölmiðlakonur frá því að þingmaðurinn Leoníd Slutsky hefði beitt þær grófri kynferðislegri áreitni. Hann neitaði þeim ásökunum og gerði grín að konunum á samfélagsmiðlum. Í frétt Guardian af máli þingmannsins segir að lítið hafi farið fyrir metoo-byltingunni í Rússlandi og að margt fólk sjái hana einungis sem vestrænt fyrirbæri. Dubrovsky tekur undir það og segir konur jafnt sem sem karla á móti byltingunni.

Þingmenn komu Slutsky til varnar

Formaður nefndar fjölskyldumála á rússneska þinginu, Tamara Pletneve, kom Slutsky til varnar eftir að málið kom upp. „Við búum ekki í Bandaríkjunum eða Evrópu. Af hverju ættum við að herma eftir öllu sem gerist þar? Aðeins konur sem sækjast eftir athygli eru áreittar,“ var haft eftir henni í rússneska miðlinum Maduza. Hann segir að mikið hafi verið um þolendaskömm í kjölfar þess að konurnar greindu opinberlega frá áreitninni og þær sakaðar um að vera ófagmannlegar í sínum störfum. Vyacheslav Volodin, talsmaður þingsins, sagði eftir ásakanirnar að ef að fjölmiðlakonum liði illa á þinginu og að þær upplifðu óöryggi þar, ættu þær bara að finna sér annað starf. „Við erum á þessum stað núna þegar kemur að réttindum fólks,“ segir Dubrovsky.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi