Segir Pútín hafa hreðjatak á Trump

17.07.2018 - 12:28
epa05933220 Democratic House Minority Leader from California Nancy Pelosi (L) and Democratic Senate Minority Leader Chuck Schumer (R), along with other lawmakers, speak about President Trump's first 100 days in the US Capitol in Washington, DC, USA,
Nancy Pelosi og Chuck Schumer, leiðtogar Demókrata á Bandaríkjaþingi, segja tillögu Trumps augljóslega ekki til þess gerða að stuðla að sáttum og samvinnu Mynd: EPA
Leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings segir að forseti Rússlands hljóti að hafa tangarhald á Trump Bandaríkjaforseta og búa yfir viðkvæmum upplýsingum um forsetann sem geti skaðað hann. Það sé eina skýringin á hegðun Trumps á blaðamannafundinum í Helsinki í gær.

Leiðtogafundi Trumps og Pútíns var ekki fyrr lokið, en Trump var mættur í viðtal á sjónvarpsstöðinni Fox. Þar undraðist hann endalausan áhuga fréttamanna á nornaveiðunum eins og hann kallar rannsóknina á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, sem eru að verða flestum ljós, líka samflokksmönnum Trumps. Og hann ítrekaði aðdáun sína á Vladímír Pútín.

Það rignir hins vegar gagnrýni yfir Trump úr öllum áttum, frá samherjum hans, andstæðingum og stjórnmálaskýrendum víða um heim. John McCain, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og samflokksmaður Trumps, segir þetta vera skammarlegustu framkomu Bandaríkjaforseta í manna minnum. Meira að segja Paul Ryan, forseta fulltrúadeildarinnar og einum helsta bandamanni Trumps, var nóg boðið. Hann sagði engan vafa leika á því að Rússar hefðu haft áhrif á forsetakosningarnar og reynt að grafa undan lýðræðinu. Forsetanum verði að skiljast að Rússar séu ekki bandamenn Bandaríkjanna.

Öldungadeildarþingmaðurinn og Demókratinn Bill Nelson benti á að leyniþjónustan hefði komst einróma að þeirri niðurstöðu að Rússar hefðu haft afskipti af kosningunum. Það væri því fjarstæðukennt og bókstaflega sturlað að forseti Bandaríkjanna kæmi svo fram á fundi og segði Pútín hafa rétt fyrir sér.

Fréttaritari AP í Hvíta húsinu sagði eftir fundinn í gær að áhorfendur hefðu orðið vitni að afar sérstakri uppákomu. Hún bætti við að rauði þráðurinn í ferðalögum og fundahöldum Trumps í síðustu viku virtist vera að grafa undan og gagnrýna hefðbundna bandamenn Bandaríkjanna en fara svo með silkihönskum um helstu andstæðinga þeirra.

Fáir gengu þó eins langt í gagnrýni sinni og Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni. Hann sagði framkomu Trumps á blaðamannafundinum einstaka í sögu Bandaríkjanna og að engin önnur skýring gæti verið á undirgefni Trumps við Pútin en að Pútín byggi yfir viðkvæmum upplýsingum um Trump sem hann notaði til þess að svínbeygja forseta Bandaríkjanna.

Fréttamaður CBS sagði í fréttum í gærkvöldi að fundurinn í Helsinki hefði verið sögulegur. Honum hefði lokið á þann táknræna hátt að Pútín hefði gefið Trump fótbolta og Trump hefði í staðinn veitt Pútín syndaaflausn.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi