Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir Panamaskjölin hafa breytt viðhorfi fólks

07.01.2017 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Áætlað er að íslenska ríkið verði af hátt í sex og hálfum milljarði árlega vegna vantalinna eigna Íslendinga í skattaskjólum. Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir ástandið betra í dag en fyrir hrun, ekki síst vegna breyttra viðhorfa almennings í kjölfar Panamaskjalanna svokölluðu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði starfshóp í júní til að meta umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu á aflandssvæðum, það er svokölluðum skattaskjólum. Skýrsla hópsins, sem var tilbúin í byrjun október, var birt í gær þremur mánuðum síðar.

Þar kemur fram að stökkbreyting hafi orðið í flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða fljótlega upp úr aldamótum. Fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga hafi fertugfaldast frá árinu 1999 fram að hruni og eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg hafi 46 faldast á sama tímabili.

Einstök aflandsvæðing á heimsvísu

Þá hafi aflandsvæðing íslensks efnahagslífs verið einstök á heimsvísu á þessum tíma, eins og Panamaskjölin svokölluðu gefi til kynna. Íslensk skattalög hafi gefið meira svigrúm til að flytja eignir frá Íslandi með löglegum hætti en víða annars staðar og eftirfylgni og gagnaskráning hafi ekki haldið í við hraðan vöxt fjármagnsflutninga. 

„Þessi skýrsla sýnir auðvitað fyrst og fremst hvað það er erfitt að meta þetta,“ segir Skúli Eggert í samtali við fréttastofu. Skýrslan sýni sömuleiðis hversu alvarlegt ástandið hafi verið á fyrsta áratug aldarinnar, eins og skattayfirvöld hafi bent  á. Það hafi skaðað fjárhag íslensku þjóðarinnar mikið. Hann telur að Panamalekinn svokallaði hafi breytt viðhorfinu í samfélaginu.

„Það þarf auðvitað að gæta þess að menn fari ekki í þennan sama farveg eins og var á þessum árum. Það er auðvitað ákveðin hætta á því að menn seilist í að fara í þetta aftur,“ segir ríkisskattstjóri. „Sjálfur hef ég ekki mikla trú á því að það verði í sama mæli vegna þess að það er búið að girða það mikið fyrir möguleika til þess, menn eru miklu meira á vaktinni, og svo er bara almenn andstaða almennings að eiga samskipti eða viðskipti við félög af þessu tagi.“