Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir Panama-skjölin runnin undan rifjum Soros

27.07.2016 - 21:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í viðtali á Útvarpi Sögu í dag að bandaríski auðkýfingurinn George Soros hafi keypt Panama-skjölin og notað að vild. Soros er meðal ríkustu manna heims. Sigmundur setur spurningarmerki við það að fáir Bandaríkjamenn hafi verið í Panama-skjölunum.

Segir farið eftir reglum

Arnþrúður Karlsdóttir spurði Sigmund Davíð í lok viðtalsins hver hafi staðið að baki árásunum á hann fyrir fjórum mánuðum, líkt og hún orðaði það. „Ég hef nokkuð góða hugmynd um það, en ég held að það sé efni í heilan þátt, við getum farið yfir það við tækifæri,“ sagði Sigmundur Davíð og bætti við: „En það er mjög margt áhugavert sem hefur komið fram hvað þetta varðaði við þessa aðför, sem hafði verið undirbúin í sjö mánuði, í nokkrum löndum og beitt þessum gögnum, sem að Soros vogunarsjóðskóngur hafði keypt og greinilega gat notað að vild.

Ég bendi bara á eina áhugaverða staðreynd, það voru ekki margir Bandaríkjamenn á þessum lista og ekki margir, líklega enginn, af þessum vogunarsjóðsmönnum sem fara nú mikinn og eru kannski með vikulaun eitthvað svipað og konan mín hafði fengið þarna í fjölskylduarf. Þannig að það er greinilegt að það var eftir einhverjum reglum valið úr hverjir yrðu teknir fyrir og svo er bara skrifuð sagan. Það skipti engu máli hvað kom í ljós í millitíðinni, hvað reyndist rangt og rétt,“ svaraði Sigmundur.

Arnþrúður spurði Sigmund því næst hvort að Panama-skjölin hefðu verið pólitísk. „Það hvernig var farið með þetta er augljóslega pólitískt, það hefði alltaf verið fréttnæmt að nafn forsætisráðherra fyndist á svona lista sem verið væri að leka, en berið bara saman umfjöllunina um forsætisráðherra Íslands annars vegar og forsætisráðherra Bretlands hins vegar. Í hans tilviki hafði hann þó hagnast á þessu að greiða ekki skatta, persónulega hagnast. Þannig að, já, það er margt skrýtið í þessu og áhugavert en ég held við þurfum lengri tíma til að gera því góð skil,“ svaraði Sigmundur.     

Taldi ekki æskilegt að flýta kosningum

Sigmundur sagði að það hafi aldrei komið til greina að sjálfstæðismenn fengju forsætisráðuneytið eftir að hann sagði af sér sem forsætisráðherra. Hann sagði að hann hafi ekki talið það góða hugmynd að flýta kosningum. „Ég veit ekki um neinn þingmann Framsóknarflokksins, að minnsta kosti var ég ekki var við það að nokkur tjáði sig á þann hátt, að þetta væri æskilegt. Sigurður Ingi taldi þetta ekki æskilegt heldur, en við ákváðum það að fyrst að sjálfstæðismenn væru að sækjast eftir þessu, væntanlega í þeim tilgangi þá að ná einhverjum friði um málin, þá þyrfti það að vera mjög skýrt af okkar hálfu að þetta væri ásættanlegt þá og því aðeins að menn kláruðu málin.

Ef við erum að bjóða upp á það að flýta kosningum, til þess að reyna að ná málum saman, þá segir það sig eiginlega sjálft að þá er skilyrði, eins og var tekið fram, þó það ætti varla að þurfa að taka það fram, að málin klárist áður en kosningar eru haldnar,“ sagði Sigmundur. 

Hér má hlusta á viðtalið í heild sinni.