Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir ótímabært að tjá sig um rammaáætlun

16.04.2018 - 12:21
Mynd með færslu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, auðlinda- og umhverfisráðherra. Mynd: RÚV
Umhverfisráðherra telur ekki tímabært að tjá sig um hvenær hann leggur fram tillögur sínar um virkjanakosti samkvæmt rammaáætlun. Nærri tvö ár eru síðan verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar skilaði af sér. Tveir umhverfisráðherrar hafa lagt tillögur sínar fyrir Alþingi en þær voru ekki afgreiddar. 

Tveir umhverfisráðherrar hafa þegar lagt fram tillögur sínar á Alþingi en tíð ríkisstjórnarskipti hafa gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að afgreiða þær. Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra lagði til 7. mars í fyrra að farið yrði eftir tillögum verkefnisstjórnar. Þann 14. september 2016 lagði Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra fram sína tillögu sem einnig var samhljóða tillögu verkefnisstjórnarinnar.

Ráðuneytið hefur tvö ár

Verkefnisstjórnin lagði fram lokaskýrslu sína í ágúst 2016 en hafði kynnt drögin í mars sama ár. Upplýsingafulltrúi Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sendi Fréttastofu svar Guðmundar Inga Guðbrandssonar ráðherra fyrir hádegi sem segir málið í skoðun í ráðuneytinu og að ráðherrann telji ekki tímabært að tjá sig um það að svo stöddu. Ráðuneytið hefur nú haft tvö ár til þess að skoða málið. Eina sem breyst hefur eru ráðherrarnir sem eru fulltrúar ólíkra stjórnmálaflokka. 

Meðal þess sem breyttist í niðurstöðum 3. áfanga frá öðrum áfanga var að Urriðafoss- og Holtavirkjanir í neðri hluta Þjórsár voru settar í nýtingarflokk. Andstaða hefur verið við þær virkjanir meðal annars úr röðum Vinstri grænna. Þá komst Austurgilsvirkjun í Ísafjarðardjúpi í virkjunarflokk og er leyfi fyrir 35 megawattavirkjun. Bjartmar Pétursson einn landeigenda sem er í hópnum sem stendur að virkjuninni segir að tafir á afgreiðslu hafi ekki áhrif í bili. Hins vegar sé miðað við að af virkjun verði og nú standi yfir rannsóknir og hagkvæmnisathuganir.