Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir orð forsetans hafa leitt til sundrungar

23.11.2015 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að forseti Íslands ali á tortryggni í garð múslima með ummælum sínum eftir hryðjuverkin í París. Orð hans um Schengen gangi þvert á það sem leiðtogar Evrópuríkja ræði nú um samstarfið

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur í nokkrum viðtölum rætt eftirmál hryðjuverkanna í París. Forsetinn hefur sagt að ógn sem kennd er við hið öfgafulla íslam sé mesta ógn okkar tíma. Þótt ekki eigi að fordæma flóttamenn og hlaupa frá samfélagi fjölmenningar og umburðarlyndis eigi fólk heldur ekki að lifa í barnalegri einfeldni um að hægt sé að taka á þessum vanda með aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegum umbótum. Ólafur Ragnar segir að sér hafi verið brugðið vegna þess að Sádi-Arabía ætlaði að styrkja byggingu mosku hér á landi.

„Hafa leitt til sundrungar í samfélaginu.“
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, gagnrýnir framgöngu forsetans eftir hryðjuverkin. „Já það er athyglisvert að forseti Íslands hafi hagað orðum sínum með þeim hætti að þau hafa leitt til sundrungar í samfélaginu, deilna og átaka, frekar en sameiningar og samstöðu. Því er kannski ekki að undra að margir velti fyrir sér hlutverki forsetaembættisins á stundum sem þessum,“ segir Baldur.
„Það hefur verið skilningur margra á embættinu að það væri verkefni forsetaembættisins á erfiðum stundum að sameina þjóðina í viðbrögðum sínum en kannski ekki að ala á sundrungu og óvild,“ segir Baldur.

„Þvert á það sem við sjáum í öðrum ríkjum Evrópu.“
Ólafur Ragnar hefur enn fremur gagnrýnt Schengen-samstarfið og sagt að það hafi brugðist í aðdraganda hryðjuverkanna. Eðlilegt sé að Íslendingar velti því fyrir sér hvort þeir eigi að taka þátt samstarfinu.Baldur bendir á að þetta sé þvert á það sem rætt er um í öðrum ríkjum.

„Schengen-samstarfið og lögreglusamstarf almennt í Evrópu þessa dagana er mikið til umræðu og Schengen er heilmikið gagnrýnt af ráðamönnum í Evrópu. Það er gagnrýnt á þeim forsendum að það sé ekki nægileg samvinna innan Schengen. Almennt eru ráðamenn í öðrum Evrópuríkjum að kalla eftir hertara landamæraeftirliti, nánari lögreglusamvinnu og öflugri lögreglugagnagrunni sem menn geta leitað í til þess að fá upplýsingar um hugsanlega hryðjuverkamenn. Ekki að ganga út úr samstarfinu. Þannig að þessi orðræða er alveg þvert á það sem við sjáum í öðrum ríkjum Evrópu.“