Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir offramboð af kannabisefnum hérlendis

27.05.2016 - 17:35
Blóm á kannabisplöntu.
 Mynd: Pixabay
Kaffihús þar sem neyta má efnisins, lögleiðing neyslu, sölu og dreifingar. Þessa þróun vill Örvar Geir Geirsson, kannabisneytandi og umsjónarmaður Facebook síðunnar Reykjavík Homegrown, sjá verða að veruleika á Íslandi. Ólíklegt er að Örvari verði að ósk sinni í bráð en skref í þá átt að afglæpavæða einkaneyslu kunnu þó að verða stigin á næstunni.
Mynd með færslu
 Mynd: Dan Nguyen - flickr.com
Miðborg Reykjavíkur á maíkvöldi.

Miðvikudagskvöld, klukkan rétt farin að ganga ellefu. Á göngu upp Laugaveginn skýtur lyktin upp kollinum. Og svo aftur. Kannabislykt. Hér á landi er ólöglegt að hafa kannabis og önnur vímuefni í fórum sínum óháð því hvort þau eru ætluð til einkaneyslu eða ekki. Öll vímuefnabrot rata beint á sakaskrá. Það virðist þó ekki skjóta þessum neytendum skelk í bringu. 

„Fólk er minna hrætt við notkunina og að nýta sér að reykja niðri í miðbæ Reykjavíkur og annars staðar. Þetta er orðið hluti af skemmtanalífi borgarinnar.“

Segir Örvar sem hefur staðið fyrir árlegum grasreykingasamkomum hér á landi.

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

Tíu þúsund jónureykingamenn

Könnun sem landlæknir lét gera árið 2012 bendir til þess að um 10 þúsund manns neyti kannabisefna reglulega hér á landi. Meðlimir Facebook-síðunnar sem Örvar stjórnar, Reykjavík Homegrown, eru tæplega 5000, hann telur að grasneysla hafi stóraukist hérlendis upp á síðkastið, sérstaklega meðal fullorðinna. Forsvarsmenn SÁÁ segjast ekki hafa merkt aukningu á allra síðustu árum. Niðurstöður Evrópsku vímuefnarannsóknarinnar, ESPAD, benda að minnsta kosti til þess að ungmenni prófi síður kannabis nú en fyrir 20 árum.

Fleiri reykja meira en áður

Árið 1995 höfðu tæp 10% tíundubekkinga prófað það en árið 2015 höfðu 8% reykt kannabis. Á sama tíma hefur dregið verulega úr áfengisneyslu meðal tíundubekkinga. Samhliða þessu hefur þó hlutfall tíundubekkinga sem notað hefur kannabisefni oftar en 40 sinnum rúmlega þrefaldast. Árið 1995 höfðu 0,7% þeirra sem svöruðu könnuninni gert það en 2,3% árið 2015. Flest ungmennanna sem neyttu kannabis í miklum mæli neyttu einnig áfengis.

Auðveldara en að redda bjór

Örvar segir unglinga eiga afar auðvelt með að útvega sér kannabisefni. 

„Í dag er þetta held ég auðveldara fyrir unglinga en að redda sér bjór, við erum með þessar Facebook-grúppur, og það hefur auðvitað alltaf verið, það er auðvelt aðgengi að þessu.“

Efnið hefur verið notað í lækningaskyni, svo sem til þess að slá á verki og ógleði hjá krabbameinssjúklingum. Rannsóknir hafa þó sýnt að langvarandi og tíð kannabisneysla getur valdið greindarskerðingu og aukið hættu á geðrofi og geðklofa, sérstaklega meðal ungmenna.

EInkennin koma fyrr fram 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Geðdeild Landspítala

Sigurður Örn Hektorsson, yfirlæknir á fíknigeðdeild Landspítala, segir að að jafnaði liggi einn til þrír inni á deildinni vegna geðrofssjúkdóma sem tengja megi kannabisnotkun. Hann segir að kannabisneysla hafi náð ákveðnum toppi um aldamótin 2000, síðan hafi dregið úr henni og nú sé hún hugsanlega að aukast aftur, það sé erfitt að segja til um það. Oft eru þeir skjólstæðingar deildarinnar sem glíma við geðrofssjúkdóma í blandaðri neyslu. Sú er þó ekki alltaf raunin. Þeir sem hafi byrjað að reykja um aldamótin og haldið þvi áfram séu sumir að finna fyrir afleiðingunum núna. Þá hafi færst í aukana að ungmenni sem neytt hafa kannabisefna daglega í nokkurn tíma veikist.

Styrkurinn eykur áhættuna

Sigurður telur að í tilfelli unga fólksins sé styrk efnanna um að kenna, efni á markaði hafi orðið sterkara undanfarin ár, áhrifin á heilann verði því meiri og geðræn einkenni komi fram fyrr. Þetta sé áhyggjuefni. 

Helmingur ungmenna með geðklofa notar vímuefni

Sigurður segir að um helmingur ungmenna með geðklofa noti kannabis eða önnur vímuefni, þetta geti gengið í báðar áttir. Stundum sé kannabis orsakavaldur en einnig virðist ungmenni með geðklofa hafa tilhneigingu til að leita í efnið. Þessir einstaklingar svara mun síður meðferð og geðrofseinkenni þeirra verða svæsnari í neyslu, að sögn Sigurðar. Þrátt fyrir þetta er Sigurður fylgjandi því að horfið verði frá því að refsa neytendum fyrir að hafa efnin í fórum sínum, hann segir að flestum sé orðið ljóst að refsistefna skili litlu. Hann telur þó ekki æskilegt að afglæpavæða sölu og dreifingu vímuefna. 

Telur lögleiðingu leysa styrkleikavandann

Örvar tekur undir það að efnin hafi orðið sterkari í gegnum tíðina. Hér á landi hafi fólk keppst við að framleiða sterkustu efnin. Þetta sé eins með heimabruggið, þar keppist fólk við að brugga sterkasta spírann. Hann telur að með lögleiðingu væri hægt að sporna gegn þessari þróun. Hægt væri að bjóða upp á efni í öllum styrkleikaflokkum í sérstökum verslunum og draga úr óvissu meðal neytenda um hversu mikill styrkur efnisins sem keypt er sé. Nú mætti líkja efninu á markaði við landa en með lögleiðingu mætti bjóða upp á efni sem væri ígildi bjórs. 

Í brennidepli í lögleiðingarumræðunni

Nammibangsar.
 Mynd: Shannah Pace - Freeimages
Er kannabis í þeim?

Kannabis hefur verið í brennidepli í umræðunni um lögleiðingu eða afglæpavæðingu fíkniefna, eftir að nokkur ríki Bandaríkjanna lögleiddu bæði neyslu og sölu. Enn liggur ekki fyrir hvort það hafi verið til góðs eða ills. Colorado var fyrst til þess að lögleiða árið 2014. Í frétt Boston globe frá því í febrúar segir að meirihluti íbúa telji lögleiðinguna til góðs. Það hafa skapast ný störf, ríkið fær tekjur af sölunni og yfirvöld segjast ekki hafa orðið vör neinar stórkostlegar breytingar í kjölfar lögleiðingarinnar. Í nýrri skýrslu um áhrif lögleiðingarinnar er greint frá því að starfsfólk meðferðarstofnana verði vart við aukna neyslu, árið 2014 neytti um þriðjungur þeirra sem leituðu aðstoðar vegna vímuefnavanda kannabisefna daglega en árið 2007 gerði innan við fjórðungur þeirrra það. Höfundur skýrslunnar bendir þó á að hugsanlega leiti fleiri aðstoðar nú, þar sem, neyslan sé ekki litin jafnmiklu hornauga og áður. Hlutfall ungmenna sem neytir efnanna var yfir landsmeðaltali fyrir lögleiðinguna og hefur ekki breyst svo neinu nemi eftir hana. Fleiri ungmennum var þó vikið úr skóla vegna vímuefnaneyslu. 

Markaðsvæðingin vekur ugg

Lögleiðingunni hefur fylgt markaðsvæðing. Sumir hafa áhyggjur af því að það leiði til þess að það verði viðteknara og neysla aukist þar af leiðandi. Ungmenni séu sérstaklega móttækileg fyrir þessum áhrifum. Gúmmíbangsar og sælgætisstykki sem innihalda kannabis er það sem einna helst hefur verið til vandræða. Það er mikið framboð af kannabisvörum sem hægt er að leggja sér til munns og það getur verið erfitt að greina á milli venjulegs gúmmíbangsa og gúmmíbangsa sem inniheldur kannabis. Í fyrra voru fimmtán börn flutt á bráðamóttöku vegna þess að þau höfðu innbyrt mikið magn kannabiss með þessum hætti.

Fleiri aka undir áhrifum

Þegar efnisins er neytt í formi matar koma áhrifin seinna fram, því er hætt við ofskömmtum. Skömmu eftir að lögin tóku gildi myrti maður, sem neytt hafði efnisins í miklum mæli, eiginkonu sína í sturlunarástandi. Fleiri eru teknir fyrir að aka undir áhrifum vímuefna en áður og lögreglan hefur bent á að erfitt geti verið að sanna að bílstjóri sem neytt hefur kannabismatvæla sé undir áhrifum eða að matvæli í bílnum innihaldi kannabis. 
Tölfræði tengd kannabisneyslu er á reiki og flestir sammælast um að það þurfi að líða nokkur ár í viðbót þar til hægt verður að segja til um hvort áhrif lögleiðingarinnar hafi verið jákvæð eða neikvæð fyrir samfélagið þegar á heildina er litið. 

Smákökur, olía og hass

Kannabisplöntur í gróðurhúsi í Hollandi.
 Mynd: Mateusz Atroszko - Freeimages

Hérlendis er mikið framboð af kannabisi, vöruframboðið á svarta markaðnum er fábreyttara en í Colorado en þó segir Örvar að hægt sé að verða sér út um smákökur, olíu og hass auk maríjúana. 

Hefur túrisminn áhrif?

Áhrif túrismans á kannabissenuna hér á landi eru óljós. Ætla má að eftirspurn eftir grasi hafi aukist vegna aukins fjölda ferðamanna. Á vafasömum netsíðum hefur Reykjavík verið hampað sem grasreykingaborg og gefið í skyn að grasreykingar séu hér algengari en nokkur staðar annars staðar miðað við höfðatölu. Þetta stenst ekki skoðun. Fjölmiðlar hafa greint frá því að á Facebook geti túristar óskað eftir því að fá grasbirgðir sendar heim á hótel og jafnvel út á flugvöll, strax við komu. Það kæmi Runólfi Þórhallssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ekki á óvart þó eftirspurnin hefði aukist vegna túrismans þó hann geti ekki fullyrt neitt um það. 

Mynd með færslu
 Mynd: reykjavik.is

Lögreglan leggur nú einkum hald á heimaræktað maríjúana, síður á innflutt hass. 

„Markaðurinn hér heima sér neytendum nánast algjörlega fyrir neyslunni.“

 Örvar gengur lengra, talar um offramboð. 

„Eftir fjármálahrunið gátu þeir ekki skipt gjaldeyrinum úr fíkniefnagróðanum yfir í erlendan gjaldmiðil til að kaupa meira inn í landið. Það sem gerðist er að þeir fóru að fjárfesta í lömpum. Nú er þetta orðið þannig að allt kannabis er innlend framleiðsla. Götuverðið er svona þrjúþúsund kall á grammið og svo eru magndílar alls konar eftir það. Þetta er eina varan sem ekki hefur hækkað í verði frá hruni, það er bara offramboð, nóg af kannabisi á Íslandi.“

Lögreglan leggi minna upp úr því að ná notendum

Örvar telur að lögreglan leggi minna upp úr því en áður að hafa hendur í hári kannabisneytenda. Það hafi orðið breyting í átt til afglæpavæðingar þrátt fyrir að hún sé ekki orðinn hlutur. Áður hafi lögreglan oft gengið harðar fram gegn neytendum og ekki virt rétt þeirra til friðhelgi einkalífs. 

„Þetta að bara út af því að einhver hundur finnur einhverja lykt af þér, þá hverfi allur þinn réttur.“

Hann þakkar Snarrótinni, samtökum um borgaraleg réttindi. Þau hafi staðið fyrir vitundarvakningu um réttindi vímuefnaneytenda. 

Seljendur og ræktendur alltaf verið í forgangi

Runólfur segir að það hafi alltaf verið í forgangi hjá lögreglunni að ná til seljenda og ræktenda. 

„Í leit lögreglu að sölumönnum kannabisefna kemur það náttúrulega fyrir að það séu eingöngu neytendur sem lenda í afskiptum en ég held að þessi gagnrýni hafi ekki haft áhrif á forgangsröðun hjá okkur.“

En á gagnrýnin rétt á sér?

„Það kemur alltaf upp á að lögreglumenn geri mistök í nálgun sinni í þessum málaflokki en það er sem betur fer ekki algengt.“

Áttatíu sölusíður fundust

Í fyrra var gerð rassía á 73 ræktunarstöðum en 33 það sem af er ári. Í fyrra var einnig gert átak gegn sölu fíkniefna á Facebook. Áttatíu sölusíður með samtals 2200 meðlimum voru skoðaðar. Tuttugu umsvifamestu salarnir voru valdir úr, farið í handtökur og húsleitir sem skiluðu um kílói af kannabisefnum, 300 grömmum af amfetamíni og lítilræði af kókaíni og LSD. Lögreglan óskaði eftir því við facebook að 10 síðum yrði lokað og var orðið við því öðrum var lokað af þeim sem settu þær upp. Að sjálfsögðu spruttu upp nýjar síður jafnharðan. Runólfur segir að þessi verkefni hafi setið á hakanum, eftir að götuhópur fíkniefnadeildar lögreglunnar var lagður niður vegna fjárskorts, verkefnin hafi þá færst til lögreglustöðvanna og þar sé ekki nægur mannafli til að sinna þeim.

„Við gætum sjálfsagt verið að taka miklu fleiri ræktanir ef við hefðum haft mannskap og tíma til.“

Gæðavottun, skattar og aldurstakmark

Örvar telur það samfélaginu til hagsbóta verði neysla, sala og dreifing leidd í lög. Afglæpavæðing ein og sér sé ekki nóg. 

„Mér finnst það alveg jafn fáránlegt að vera að grípa fólk með kannabis útaf því að það er að skaða sjálft sig eins og að fara heim til manns sem stakk sig með gafli og fjarlægja alla gaflana frá honum. Þetta verður alltaf til staðar og við eigum í raun og veru að lögleiða þannig að það sé bæði aldurstakmark, það sé vottur um gæði og innihald á magni á THC. Að þetta sé undir eftirliti og skili af sér ákveðnum sköttum.“

Efnin yrðu seld í sérverslunum eða jafnvel ríkisverslun. Þannig mætti uppræta svartamarkaðsbrask.

Hætti að vera antisocial dröggið

 Örvar játar að við þetta yrði neyslan hugsanlega samþykktari og meira áberandi en telur ólíklegt að hún myndi aukast. Það yrðu aftur á móti til félagsleg viðmið í kringum hana um hvað sé ásættanleg neysla og hvað ekki. Þá telur hann að þetta myndi ekki endilega leiða til aukinnar neyslu meðal unglinga. Aðgengið minnki. 

„Að vissu leyti þá hættir þetta að vera antisocial dröggið, flott og kúl að nota kannabis af því þetta er orðið löglegt. Áfengisneysla hefur dregist mjög saman meðal unglinga á Íslandi síðasta áratuginn og ég myndi spá því að sama gerðist með kannabis ef við lögleiðum það, setjum aldurstakmark og gerum það tabú að það sé verið að selja unglingum. Á meðan þetta er svart á markaði þá er enginn díler að fara að biðja þig um skilríki.“

Ættum kannski að staldra við

Runólfur segir sjálfsagt að skoða það að afglæpavæða neyslu efnanna. Reynslan erlendis frá bendi til þess að það gæti verið góð leið. 

„En það er líka kannski gott að staldra við, gefa þessu meiri tíma, sjá hvað gerist í Denver og Portúgal, gefa þessu lengri tíma til að þróast því vafalaust kemur fram einhver gagnrýni á þetta á síðari stigum.“

Lögleiðing kemur aftur á móti ekki til greina að hans mati. 

„Nei, við ættum að gera þarna, eins og er verið að skoða, að gera skýran greinarmun. Þetta sé heilbrigðismál þegar neytendur eru annars vegar en þeir sem eru að dreifa og selja eru oft tengdir öðrum glæpum og við þurfum að ná til þeirra.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Lögleiðing er heldur ekki inni í myndinni hér á landi en starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra, sem hefur verið starfandi frá árinu 2014, skilar á næstunni tillögum að nýrri stefnu í vímuefnamálum, markmiðið er að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu. Í þingsályktunartillögu, sem markaði upphaf vinnu starfshópsins, er lagt til að horfið verði frá refsistefnu og meiri áhersla lögð á úrræði innan heilbrigðis- og félagslega kerfisins. Útlit er fyrir að tillögur starfshópsins verði til þess að einkaneysla vímuefna verði afglæpavædd hér á landi að einhverju marki.

Margir farnir að efast

Margir hafa undanfarin ár viðrað efasemdir um þá fíkniefnastefnu sem hefur verið ráðandi víðast hvar, sagt refsistefnu engu skila og í raun auka vanda neytenda. Einn þeirra er Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Hugsunin er þessi: eiturlyfjaneytendur eru ekki glæpamenn, þeir eru veikir.

Afglæpavæðing einkaneyslu er talin hafa gefið góða raun í Portúgal en þar er komin 15 ára reynsla á hana. Þar er neytendum ekki refsað fyrir að hafa neysluskammta í fórum sínum heldur er þeim veitt ráðgjöf og boðin heilbrigðisaðstoð. Fleiri fullorðnir Portúgalar játa reyndar að hafa prófað vímuefni en áður en á móti hefur dregið úr fíkniefnaneyslu meðal ungmenna, fleiri leita meðferðar vegna vímuefnavanda og eyðnismitum og neyslutengdum dauðsföllum hefur fækkað. Það eru þó ekki allir sáttir, gagnrýnendum finnst stjórnvöld hafa gefið drauminn um fíkniefnalausan heim upp á bátinn. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV