Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Segir of fáa ferðamenn á Íslandi

27.07.2013 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Bílaleigunnar Geysis Framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis segir að ferðaþjónusta hér á landi verði ekki alvöru atvinnugrein fyrr en hingað komi þrjár milljónir ferðamanna á ári.

Hann segir rangt að landið sé orðið fullt þó einn eða tveir staðir séu komnir að þolmörkum. Það þurfi bara að dreifa ferðamönnum.

„Mín skoðun er sú að ferðamenn á landinu séu bara, því miður, of fáir á árgsgrundvelli. Alltof fáir. Ég slæ því nú fram í greininni þarna að þetta verði nú ekki alvöru atvinnugrein fyrr en það komi þrjár milljónir ferðamanna til landsins á ári. Og haldi áfram að gista svona að meðaltali fimm nætur á landinu og það myndi þá gera fimmtán milljón gistinætur á ári. Og ef þú deilir því jafnt niður á alla daga ársins þá myndi það þýða að það væru svona fjörtíu þúsund manns á landinu, jafnt yfir, fjörtíu og eitt þúsund manns fleiri. Þannig að við yrðum þá, í staðinn fyrir að vera 320 þúsund, Íslendingar, þá yrðum við kannski svona 360 þúsund, svona með öllum,“ segir Margeir. 

Núna er ásóknin, og verður sjálfsagt áfram, mest á ákveðna staði og margir halda því fram að þeir séu komnir nú þegar að þolmörkum eða jafnvel yfir þau. Og samt er ferðamannafjöldinn á ársgrundvelli í dag ekki nema tæplega níu hundruð þúsund.

„Já, en þá getum við sagt, hvaða staðir eru þetta sem við erum að miða við? Það er þingvellir, Gullfoss og Geysir. Og þetta eru þessir staðir þar sem við pumpum ferðamönnunum, hverjum og einum einasta, í eitthvað produkt sem við  köllum Gullna hringinn. En hvað er mikið af öðrum svona náttúruperlum á landinu?  Þær eru fjölmargar og við eigum ekkert að vera að meta fjölda ferðamanna útfrá eigin aumingjaskap fyrir að búa ekki til fleiri produkt. Og sýna fólki fleiri staði og byggja upp fleiri ferðamannastaði,“ segir Margeir.