Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir óæskilegt að fjölga hjúkrunarrýmum

25.10.2017 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstöðumaður Öldrunarheimila Akureyrar segir að of margir íbúar á hjúkrunarheimilum þurfi í raun ekki að vera þar. Æskilegt sé að styrkja heimaþjónustu frekar en að fjölga hjúkrunarrýmum. 

Mikið hefur verið rætt um skort á hjúkrunarrýmum að undanförnu, biðlistar eru langir og vilja flestir stjórnmálaflokkar fjölga hjúkrunarheimilum. Samkvæmt nýrri áætlun heilbrigðisráðherra á að bæta við 155 nýjum hjúkrunarrýmum, umfram þau 313 rými sem verið er að byggja.

Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Halldóri Guðmundssyni, forstöðumanni Öldrunarheimila Akureyrar, að ekki þurfi að fjölga hjúkrunarrýmum, þau séu í raun of mörg. 

Of margir gætu verið heima

Halldór segist með þessu miða við tillögur stjórnvalda um málefni aldraðra, en samkvæmt þeim skulu 85% 80 ára og eldri búa heima árið 2035, en hlutfallið er mun lægra í dag. Hann segir að það séu of margir íbúar á hjúkrunarheimilum sem í raun þyrftu ekki að vera þar. Biðlistar myndist og margir í brýnni þörf komist ekki að. 

„Og get vísað í skýrslu ríkisendurskoðunar til samræmis við þetta mat og það hefur ekkert breyst alveg frá 2008. Ríkisendurskoðun kvað upp um það að það væru 5-10% af öllum íbúum á hjúkrunar- og dvalarheimilum á landinu sem sennilega gætu verið annars staðar og ættu með réttu að vera annars staðar,“ segir Halldór. 

„Fangi á sínu heimili“

Milli 60 og 70 manns eru á biðlista eftir hjúkrunarrými á Akureyri. Móðir Gunnars Kr Jónassonar hefur beðið í tvö ár eftir plássi. „Af því hún þarf á því að halda, en áherslan er öll á að fólk sé heima. Hún einangrast, hún er á annarri hæð og á erfitt með ganga upp stiga. Hún er nánast fangi á sínu heimili,“ segir Gunnar. 

Að sögn Halldórs er lausin fólgin í því að efla heimaþjónustu, einkum við þá sem eru á biðlista. Gunnar segir að það dugi ekki til. „Þú þarft bara miklu meiri aðstoð og hjúkrun heldur en heimahjúkrun getur boðið, enda er heimahjúkrun hér á Akureyri að bugast undan álagi,“ segir Gunnar. 

Tímabundið ástand

Halldór bendir á að eldra fólk sé að verða heilsuhraustara og því minnki þörfin á komandi árum. Honum líst því illa á að fjölga hjúkrunarrýmum. „Eftir 2040-2050 þá erum við væntanlega komin á þann stað að það standa tóm hjúkrunarheimili á Íslandi vegna þess að ekki fjölgar börnunum á Íslandi,“ segir Halldór.