Segir óábyrgt að halda plani með Ólympíuleikana

epa08291426 A woman wearing a protective face mask walks past a sign promoting the upcoming Tokyo Olympics at a bus stop in Bangkok, Thailand, 13 March 2020. Tokyo Olympics officials reiterated that the 2020 games will go on as planned, despite an increasing number of international sporting events being cancelled due to the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Segir óábyrgt að halda plani með Ólympíuleikana

18.03.2020 - 08:00
Hayley Wickenheiser sem á sæti í Alþjóða Ólympíunefndinni, IOC segir það óábyrgt að yfirvöld í Japan sem og IOC hafi gefið það út í gær að þrátt fyrir heimsfaraldur COVID-19 muni Ólympíuleikarnir í sumar hefjast 24. júlí eins og alltaf hafi staðið til.

„Þessi faraldur er miklu stærri en Ólympíuleikar,“ var haft eftir Wickenheiser á vef breska ríkisútvarpsins, BBC í gærkvöld. Wickenheiser vann fjórum sinnum til gullverðlauna í íshokkí með Kanada á vetrarólympíuleikum auk þess að hafa keppt á einum sumarólympíuleikum í mjúkbolta. Hún hefur átt sæti í IOC frá 2014.

„Við höfum ekki hugmynd um það hvað gerist á næstu 24 klukkutímum. Hvað þá á næstu þremur mánuðum. Íþróttafólkið getur ekki æft. Áhorfendur geta ekki gert ferðaplön og auglýsendur og styrktaraðilar geta heldur ekki gert nein plön núna. Það að IOC ætli að halda því til streitu að halda Ólympíuleikana í Tókýó á tilsettum tíma er bara óábyrgt,“ segir Wickenheiser.

Spánverjar vilja frestun

Alejandro Blanco forseti spænska Ólympíusambandsins hefur lagt það til að leikunum í Tókýó verði frestað vegna ástandsins í heiminum. Það sé nauðsynlegt til að gefa íþróttafólkinu nægt rými til að undirbúa sig almennilega fyrir leikana.

„Við viljum að Ólympíuleikarnir verði haldnir, en það þarf að setja öryggið á oddinn. Við erum stórt land í heiminum og núna þegar fjórir mánuðir eru til stefnu fyrir leikana getur okkar íþróttafólk ekki mætt til leiks í sínu besta standi,“ er haft eftir Blanco.

„Fullkomnir Ólympíuleikar er það sem við stefnum að,“ sagði Seiko Hashimoto Ólympíumálaráðherra Japana á blaðamannafundi í gær vegna leikanna. Þar átti hún við að leikarnir hæfust á réttum tíma, 24. júlí og áhorfendur yrðu á öllum viðburðum. Shinzo Abe forsætisráðherra Japans sagði við sama tækifæri að hann hefði stuðning allra G7 iðnríkjanna fyrir því að leikarnir hæfust á réttum tíma.