Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir nýjan meirihluta að myndast

09.02.2019 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata segir Miðflokkinn orðinn fjórða hjólið undir ríkisstjórninni eins og mál hafa skipast í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og víðar. Hún neitar því að minnihlutinn í nefndinni hafi ekki getað leyst fomannsmál þar og að svo virðist sem gera eigi Bergþóri Ólasyni kleift að taka aftur við formennsku síðar.

 

Bergþór Ólason formaður nefndarinnar vék úr formennsku vegna Klausturmálsins. Samkomulag er á þingi um að stjórnarandstaðan fari með formennsku í þremur fastanefndum og lagði minnihluti nefndarinnar til að annar Miðflokksmaður, sem ekki tengdist Klausturmálinu, tæki við formennsku. Ekki náðist samkomulag um það og lagði minnihlutinn þá til að formennskan færðist yfir til Viðreisnar, sem heldur ekki var samþykkt. Að endingu var tillaga Berþórs sjálfs um að Jón Gunnarsson tæki við formennsku samþykkt en Rósa Björk Brynjólfsdóttir VG var á móti ásamt minnihlutanum. Formaður Framsóknarflokksins sagði í fréttum RÚV í gær að meirihlutinnhafi axlað ábyrgð með því að taka stjórnina því minnihlutinn hafi ekki getað tekið á málinu.

„Ég svara því í fyrsta lagi að þetta er ekki rétt og það veldur mér miklum vonbrigðum að Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, spili svona gamaldags pólitískan leik þegar þetta mál hefur bitnað einna mest á varaformanninum hans, Lilju Alfreðsdóttur. Og það að hann velji að upphefja sjálfan sig og stjórnarmeirihlutann á kostnað okkar í stjórnarandstöðunni, það veldur mér miklum vonbrigðum, að hann segi okkur ófær um að geta leyst úr vegna þess að lausnin stóð vissulega ekki á okkur,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði Jón Gunnarsson hafa tekið tímabundið við formennsku í nefndinni.

„Ég held að það þýði að þeir séu reiðubúnir að skoða aftur þann möguleika að Bergþór Ólason verði formaður þegar fram sækja stundir.“

Þórhildur Sunna segist líta svo á að samkomulagið um að stjórnarandstaðan hafi formennsku í þremur nefndum hafi verið svikið. Það hafi ekki verið á valdi Miðflokksins að afhenda stjórnarflokkunum formennskuna og það hafi verið ábyrgðarlaust af stjórnarmeirihlutanum að afhenda Sjálfstæðisflokknum formennsku í fjórðu af átta fastanefndum þingsins. Hún segist ekki geta svarað því hvort minnihlutinn geti starfað með Bergþóri í nefndinni. Hann hafi, ásamt stjórnarmeirihlutanum, gert nefndina óstarfhæfa í tvær vikur sem ekki sé merki um samstarfsvilja.

„En ég sé náttúrlega bara nýjan meirihluta að myndast í umhverfis- og samgöngunefnd og svo sem víða annars staðar, að Miðflokkurinn er bara orðinn að fjórða hjólinu undir þessari ríkisstjórn, miðað við hvernig þetta liggur fyrir okkur í dag,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV