Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Segir notkun tálbeitna viðkvæma

13.01.2013 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Notkun tálbeitna og hlerana er viðkvæm á alla lund segir innanríkisráðherra. Hann segir nauðsyn að kannað sé að hvaða marki lögreglan noti heimildir sem hún hafi nú þegar við rannsókn kynferðisbrota áður en ráðist sé í gagngerar endurbætur á lögum og reglum.

Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður samráðshóps sem á að fjalla um bætt viðbrögð og eftirfylgni mála er varða kynferðisofbeldi gegn börnum, vill bæta réttarheimildir lögreglu við rannsókn á kynferðisofbeldi. Nefndi hann í því samhengi í fréttum í gær að skoða þyrfti gaumgæfilega hvort ekki ætti að heimila lögreglu að nota forvirkar aðgerðir eins og tálbeitur. Lögreglan hefur ekki heimild til þess í dag en virk tálbeita gæti til dæmis falist í því að lögregla skapaði persónu á spjallsíðu á Internetinu til að komast í samband við grunaðan barnaníðing.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri tekur undir að auka þurfi rannsóknarheimildirnar. Stefán vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins þar sem rannsókn stæði yfir í kynferðisafbrotamáli en Karl Vignir Þorsteinsson, sem gengist hefur við brotum gegn fjölda barna, situr nú í gæsluvarðhaldi.

Í grein eftir Stefán sem birtist í Tímariti lögfræðinga, segir að rannsóknir sýni að barnaníðingar séu síbrotamenn. Leita þurfi óhefðbundinna leiða til að hafa upp á þeim og stöðva háttsemi þeirra og það megi meðal annars gera með forvirkum aðferðum eins og tálbeitum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir lögreglu geta notað tálbeitur í dag samkvæmt tæplega tveggja ára gamalli reglugerð, leiki grunur á að fremja eigi refsivert brot. Ögmundur segir mikilvægt nú að skoða að hvaða marki lögreglan beiti þeim úrræðum sem hún þó hefur áður en ráðist verði í róttækar breytingar á þessu regluverki.

„Við megum ekki gleyma því að allt þetta sem snýr að rannsóknum svo sem tálbeitur eða hleranir eða hvað það er, þá er þetta mjög viðkvæmt á alla lund. Við þurfum að horfa a þetta með tilliti til mannréttindasjónarmiða og út frá réttarfarsreglum almennt. En við höfum tekið þessi mál föstum tökum og nú er að sjá hvernig lögreglan beitir þeim úrræðum sem hún hefur áður en við ráðumst í gagngerar breytingar á lögum og reglum,“ segir Ögmundur.