Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir nóg af heitu vatni

04.02.2019 - 09:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri Veitna segir að verið sé að ljúka áfanga í uppbyggingu varmastöðvar á Hellisheiði, sem geri fyrirtækinu betur kleift að mæta kuldakasti. Nóg sé af heitu vatni.

Sem kunnugt er beindu Veitur því til viðskiptavina sinna að fara sparlega með heitt vatn í kuldakastinu sem nú gengur yfir. Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna segir að ekki hafi komið til skerðingar og aldrei hafi staðið til að skerða afhendingu heits vatns til heimila. Kuldakastið núna hafi verið það lengsta síðan 2011 segir hún veðurfræðinga hafa sagt. Mikil uppbygging hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu síðan, sem hafi sitt að segja. Hún segir að tvisvar á ári fari forsvarsmenn fyrirtækisins yfir spár um þörfina.

„Það vill nú svo til að við erum akkúrat að klára næsta áfanga í Hellisheiðarvirkjun, í varmastöð, og það verður tilbúið fyrir næsta vetur. Þannig að þá náum við ákveðnum stökki í framleiðslu á heitu vatni, þannig að þá verðum við betur í stakk búin til að takast á við svona“, sagði Inga Dóra Hrólfsdóttir í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Hún segir að með þessu sé fyrirtækið í stakk búið til að mæta fjölgun íbúða. Hún segir ekki skort á heitu vatni.

„Nei, við eigum nóg af vatni, það er ekki spurning.  Þetta er bara spurning hvenær við tímasetjum fjárfestingar. Það er náttúrlega hlutur sem við berum ábyrgð á, að vera ekki að offjárfesta.“