Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir nágrannaríki vilja stjórnarskipti

30.10.2017 - 05:41
epa04954585 The Emir of Qatar, Sheikh Tamim bin Hamad bin Khalifa Al Thani delivers his speech during the 70th session of the United Nations General Assembly at United Nations headquarters in New York, New York, USA, 28 September 2015. The General Debate
 Mynd: EPA
Furstinn af Katar sakar Sáda og bandaþjóðir þeirra í Arabalöndunum um að reyna að steypa stjórn sinni af stóli með þvingunaraðgerðum sínum. Fimm mánuðir eru frá því stjórnmála- og viðskiptabann var sett á Katar af Sádí Arabíu, Barein, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum og Egyptalandi.

Sheikh Tamim bin Hamad Al-Thani, fursti af Katar, sagði í viðtali í fréttaþættinum 60 mínútur á CBS fréttastöðinni í gær að það sé augljóst að nágrannaríki þeirra sækist eftir stjórnarskiptum. Sagan kenni honum það, því ríkin hafi reynt þetta áður. Það var árið 1996 þegar faðir hans var fursti.

Nágrannaríkin lokuðu á landamæri sín að Katar 5. júní síðastliðinn og slitu öll stjórnmála- og viðskiptatengsl við ríkið. Voru þarlend stjórnvöld sökuð um að fjármagna hryðjuverkastarfsemi og eiga í of nánum samskiptum við Írana. Stjórnvöld í Katar neita ásökunum nágranna sinna alfarið. Sheikh Tamin segir í viðtalinu að nágrönnum þeirra líki ekki sjálfstæði þeirra og hugsunarhátt stjórnvalda. Katörsk stjórnvöld vilji tjáningarfrelsi þegna sinna og það sé nágrannaríkjunum ekki samboðið. Því líti þau á Katar sem ógn við sig.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV