Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Segir marklaust að refsa hælisleitendum

21.12.2014 - 20:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er algjörlega marklaust að dæma hælisleitendur með fölsuð vegabréf í fangelsi því refsingin hefur ekki fælingarmátt, segir forstjóri Fangelsismálastofnunar. Um 50 manns afplána þannig dóma árlega á meðan yfir 400 manns bíða afplánunar vegna annarra afbrota.

Í útlendingalögum segir að það geti varðað allt að sex mánaða fangelsi að vera með falsað vegabréf. Þetta hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gagnrýnt. Ríki megi ekki vísa til „ólöglegrar komu“ umsækjanda til réttlætingar á fangelsun samkvæmt samningi um réttindi flóttamanna - enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöld og beri fram gildar ástæður fyrir ólöglegri komu sinni.

Í hádegisfréttum hvatti Rauði krossinn íslensk stjórnvöld til að fylgja í fótspor Norðmanna. Þeir bönnuðu á föstudag að flóttamenn, sem koma til Noregs með fölsuð vegabréf, verði settir í fangelsi. Fleiri taka undir þetta. Þeirra á meðal er Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar.

„Mér finnst það fyrst og fremst dapurlegt enda vitum við sem vinnum í kerfinu að þetta fólk er oft fórnarlömb mansals, fólk sem á virkilega bágt. Þetta er fólk, m.a. frá Afganistan, Sýrlandi,“ segir hann og bætir við: „Þetta eru á bilinu 25 til 50 manns á hverju ári sem koma inn til okkar í 15 daga og er síðan hent út. Þetta hefur nákvæmlega engan tilgang. Við getum ekki sinnt þessu fólki. Oftast er þetta fólk algjörlega ótalandi þannig að við getum ekki veitt því neina aðstoð.“ Hann segir að í mörgum tilvikum átti fólkið sig ekki á hvar það sé eða í hvaða aðstæðum.

Ögmundur Jónasson alþingismaður vill banna þessar refsingar. Í umsögn við þingsályktunartillögu Ögmundar segir þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum að tillagan veki áhyggjur þar sem fæstir þeirra sem sæki um vernd hér á landi uppfylli skilyrði í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Margir hafi ekki í hyggju að sækja um hæli hér á landi í upphafi en afskipti lögreglu verði til þess að þeir geri það.

Páll Winkel segir að það heyri til undantekninga að í hópi hælisleitenda í afplánun séu forhertir glæpamenn. Hátt í 450 manns bíði afplánunar en hælisleitendur séu í forgangi. Páll bendir á að tilgangur refsinga sé að draga úr líkum á afbrotum.

„Ég held að fólk í Afganistan viti ekki hvort menn séu dæmdir í 15 daga fangelsi eða sitji inni í 15 daga á Íslandi ef þeir koma með fölsuð vegabréf. Þetta er algjörlega marklaust og röksemdir þeirra sem vilja viðhalda þessu eða hvað þá herða þetta, - ja ég myndi vilja sjá þær.“