Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir margt í bígerð fyrir fyrstu íbúðarkaup

08.09.2019 - 18:36
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðsvefurinn - Aðsend mynd
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir margt í undirbúningi, sem kynnt verði á Alþingi í vetur, varðandi stuðning við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Þær breytingar komi ekki fram í fjárlagafrumvarpinu. Þar komi hins vegar fram nokkurra milljarða stuðningur til byggingar leiguíbúða.

Hagfræðingur ASÍ sagði í hádegisfréttum að lítil eða engin merki væri að finna í frumvarpinu um stuðning við kaupendur fyrstu íbúðar.

Ásmundur Einar segir að í lífskjarasamningnum hafi verið gert ráð fyrir heimild til að nýta lífeyrissparnað í fasteignir og frumvarp um það sé í smíðum. Þá sé gert ráð fyrir sérstökum eiginfjárlánum þar sem ríkið eigi tímabundið hlutdeild í fasteignum með kaupandanum. 

„Og í rauninni er gert ráð fyrir því að í nýrri húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem að ég er að kynna frumvarp að á næstunni, að þar verði einfaldlega bolmagn innan þeirrar stofnunar til þess að hefja slíkar eiginfjárlánveitingar. Þannig að ég get glatt bæði Alþýðusambandið og ungt fólk, sem er að bíða eftir að geta nýtt sér þetta úrræði, að það er gert ráð fyrir þessu í uppbyggingu að þeirri stofnun að hún ráði við þetta. Og Alþýðusambandið á fulltrúa inn í undirbúningi þessa nýja frumvarps, sem að lítur að þessum lánum, og það er áætlað að það verði að þingmálaskrá nú í vetur.“