Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir lög brotin á Einari Óla

25.04.2018 - 21:13
Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta er bara grafalvarleg staða og umhugsunarvert að einhverjum skuli detta í hug að bjóða ungum manni að flytjast inn á hjúkrunarheimili,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, um mál Einars Óla Sigurðarsonar, sem hlaut alvarlegan heilaskaða í fyrra og býðst það eitt að vera vistaður á hjúkrunarheimili þar sem meðalaldurinn er 83 ár.

„Ég tel að það sé verið að brjóta lög,“ segir Bryndís. „Hann á réttindi samkvæmt lögum um réttindi fatlaðs fólks og þar undir er reglugerð sem kveður á um að þú eigir rétt á þjónustu inn á heimili þitt þar sem þú kýst að búa,“ segir hún.

Hún bendir á að Einar Óli sé fjölskyldumaður. „Hann á son og þeir deila væntanlega áhugamálum og geta hugsanlega farið saman í bíó eða á fótboltaleiki, sem ég sé ekki að maður sem býr á hjúkrunarheimili hafi frelsi til að gera.“

Í sjónvarpsfréttum í kvöld kom fram að 176 séu á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum í Reykjavík, þar af 124 með þroskahamlanir. Bryndís segir að talan komi sér því miður ekki á óvart. „Ég vildi óska að ég gæti sagt það.“ Hún og Þroskahjálp hafi lengi vitað að ástandið sé alvarleg í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu öllu. Lítið sem ekkert hafi gerst í málaflokknum síðan hann færðist til sveitarfélaganna í ársbyrjun 2011.

„Það er verið að brjóta mjög alvarlega á einkalífi fullorðins fatlaðs fólks sem getur ekki flutt úr foreldrahúsum,“ segir Bryndís. „Svo er hinn endinn á spýtunni að foreldrar og aðstandendur lenda í aðstoðarmanns- og umönnunarhlutverki sem þeir eiga ekki að þurfa að vera í og fatlaði einstaklingurinn á ekki að þurfa að reiða sig á aðstandendur með þá aðstoð,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.