Segir lítinn mislingafaraldur hafa brotist út

07.03.2019 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir býst við fleiri mislingasmitum og segir að nú geisi lítill mislingafaraldur hér á landi. Fjórir hafa veikst en 30 eru rannsakaðir vegna gruns um smit. 

Enn eru fjórir með staðfest mislingasmit, tvö börn og tveir fullorðnir. Sterkur grunur var um tvö smit í viðbót í morgun en sýni reyndust neikvæð og því ekki um mislinga að ræða. „Það er búið að rannsaka um 30 einstaklinga sem af er,“ segir Þórólfur.

Foreldrar annars barnsins sem er smitað, leituðu til lækna, sem komust fyrst að þeirri niðurstöðu með prófi að barnið væri með inflúensu en ekki mislinga - sem kom þó síðar í ljós. 

Þórólfur segir að ef prófið sé tekið of snemma sýni það ekki rétta niðurstöðu. Þess vegna sé lögð áhersla á að taka bara sýni úr þeim sem eru með einkenni.  „Ég vil ekki kalla þetta mistök. Þetta er misvísandi túlkun á niðurstöðu prófsins. Við sjáum það með margar veirusýkingar að þær geta komið tvær saman, sérstaklega hjá börnum, en að það skuli vera inflúensa og nokkrum dögum síðar mislingar, það er óvenjulegt,“ segir Þórólfur. 

Heldur þú að það séu fleiri svona tilvik? „Ég veit það ekki, það kemur manni ekkert á óvart lengur.“

40 leikskólabörn og starfsmenn úr tveimur leikskólum, annars vegar í Garðabæ og hins vegar á Reyðarfirði verða í sóttkví í tvær og hálfa viku vegna smithættu. Fólk með mislinga getur smitað aðra í allt að tíu daga. Síðast var mislingafaraldur hér á landi fyrir um 40 árum. Þá greindust nokkrir tugir með sjúkdóminn. Þórólfur segir að gengið hafi vel að samræma aðgerðir milli embættisins og heilsugæslu og spítala.

„Þetta eru nokkrir einstaklingar og við getum búist við fleiri einstaklingum, mögulega. En vonandi verða ekki fleiri en þetta má flokka sem lítinn faraldur,“ segir Þórólfur jafnframt.