Segir Landsnet hafa gert ráð fyrir kærum

23.11.2016 - 13:58
Mynd með færslu
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets Mynd: RÚV
„Til að leysa deilur er besta ráðið að forðast þær. Við höfum horft til þess hjá Landsneti,“ sagði forstjóri fyrirtækisins, Guðmundur Ingi Ásmundsson, á morgunverðarfundi Verkfræðingafélags Íslands í morgun. Umfjöllunarefni fundarins var leyfisferli framkvæmda, en mikill styr hefur staðið um framkvæmdaleyfi sem Landsnet hefur fengið fyrir Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1.

Guðmundur Ingi var einn þriggja frummælenda, en í erindi sínu fór hann yfir framkvæmdir fyrirtækisins í tengslum við iðnaðarsvæðið á Bakka og þau vandamál sem þar hafa komið upp við að fá tilskilin leyfi fyrir framkvæmdunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Svona munu línurnar líta út.

Deilurnar snúast flestar um jarðstrengi

„Við þurfum að ná betri sátt um það sem við erum að gera, það er grundvallarsjónarmið sem við verðum að hafa í huga. Í þessu samhengi, þá höfum við verið að skoða alla okkar verkferla og vinnuaðferðir til þess að ná betra samtali við samfélagið. Vonandi erum við sífellt að sýna betri takta í þeim efnum,“ sagði Guðmundur.  

Hann fór lauslega yfir þær deilur sem hafa staðið á milli fyrirtækisins og Landverndar, en samtökin hafa lagt áherslu á að fyrirtækið leggi meira af raflínum í jörð en nú ert gert, eða gert er ráð fyrir. „Almennt má segja að þessar deilur sem við eigum í, þær snúast í flestum tilvikum um frekari lagningu jarðstrengja heldur en tillögur okkar gera ráð fyrir. Þær grundvallast, eins og þið vitið, af stefnu stjórnvalda um lagningu háspennumannvirkja í jörð,“ sagði Guðmundur.

Bæði Guðmundur og Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunarsviðs HS Orku, komu inn á það í erindum sínum að of langan tíma tæki að afgreiða leyfi fyrir framkvæmdum á sveitarstjórnarstigi.

Ásbjörn benti jafnframt á það að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gæti ekki unnið eftir þeim tímaramma sem henni er settur. Málin sem kæmu inn á hennar borð væru einfaldlega of mörg. Í haust tók framkvæmdastjóri Landverndar í sama streng í viðtali hjá fréttastofu, og sagði að veita þyrfti meira fjármagni í starf nefndarinnar svo hún gæti unnið hraðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Búið er að reisa nokkur möstur.

Höfðu ekki forsendur til að sækja um leyfi fyrr

Enginn fulltrúi Landverndar var fenginn til að halda erindi eða sitja í pallborði, en fundarstjóri tók fram að stefnt væri að því að halda annan fund þar sem fulltrúi slíkra samtaka yrði fenginn til að tala. Engu að síður voru fulltrúar þeirra á meðal áheyrenda og formaður Landverndar, Snorri Baldursson, beindi fyrirspurn til Guðmundar.

Þar spurði hann hvers vegna Landsnet hefði ekki sótt um framkvæmdaleyfi fyrr, en um ár leið frá því að samningur um afhendingu á raforku var undirritaður við Landsnet og þar til sótt var um framkvæmdaleyfi hjá sveitarfélögunum þremur sem Kröflulína 4 og Þeistareykjalína 1 fara um. Gera hefði mátt ráð fyrir því að samtök á borð við Landvernd myndu kæra útgáfu framkvæmdaleyfanna.

„Það var einfaldlega vegna þess að við höfðum ekki forsendur fyrir því fyrr. Það eru ákveðnar forsendur sem þarf að ganga frá og þær voru akkúrat á þessum tíma þannig að við sóttum um leyfið þá,“ sagði Guðmundur og vísar þar til síðasta vetrar. Hann sagði það jafnframt ekki vera Landsnets að hugsa sérstaklega um þá áhættu sem felist í töfum á framkvæmdum vegna kærumála.

Það væri áhætta sem viðsemjandi þeirra, í þessu tilfelli PCC, ætti að gera ráð fyrir. „Vissulega gerum við ráð fyrir því að það geti komið kærur af þessu tagi. Í raun þá liggur áhættan hjá aðilunum sem semja við okkur, hjá þeim sem koma inn. Við gerum ráð fyrir kærum en við tökum ekki í okkar samningum ábyrgð á stjórnvaldsákvörðunum og erum með fyrirvara í okkar samningum, þannig að við gerum ráð fyrir þessum kærum,“ sagði Guðmundur. 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi