Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir lægra verð ekki þýða slæma stöðu Gamma

19.11.2018 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Kvika banki kaupir Gamma á um milljarði minna en stefnt var að í sumar. Forstjóri Kviku segir stöðu Gamma þó ekki slæma – aðstæður á markaði og rýrnun á virði eigna í sjóðum Gamma skýri muninn.

Kauphöllinni var í nótt tilkynnt um kaup Kviku banka á Gamma, sem eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafafundar Kviku. Kaupin eiga sér nokkurn aðdraganda – viljayfirlýsing um þau var undirrituð í júní. Þá var talað um kaupverð upp á 3,7 milljarða en nú 2,4, sem getur þó tekið breytingum. Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir tölurnar ekki að fullu samanburðarhæfar – það séu ekki nákvæmlega sömu útreikningar að baki þeim. Munurinn er þó töluverður, en hvað veldur – er staða Gamma slæm?

„Nei nei, staðan er kannski ekki slæm, en það hafa náttúrulega orðið breytingar í aðstæðum á markaði og ákveðnar eignir í stýringu minnkuðu og þetta er bara afraksturinn af samningaviðræðum eftir að áreiðanleikakönnun lauk, eins og oft gerist,“ segir Ármann.

Meginstarfsemi Gamma er rekstur verðbréfasjóða og fasteignasjóða á borð við Almenna leigufélagið og Ármann segir sjóðina vera það sem Kvika er helst að sækjast eftir. Kvika hefur einkum verið banki fyrir sterkefnaða en Gamma fór nýverið að bjóða ungu fólki náms- og fasteignalán úr sjóðum sínum í gegnum tengd félög.

„Við munum halda þeim rekstri áfram. Í raun og veru koma lánin til ungs fólks í gegnum sjóði Gamma og við erum að fara að taka yfir þann rekstur,“ segir Ármann.

Starfsmannaleigan Elja og verktakafyrirtækið Domus eignir fylgi hins vegar ekki með. „Nei, hluti af þeim eignum sem seljendur halda eftir – eru hluti af kaupverðinu – eru meðal annars þessar eignir sem þú nefnir,“ segir Ármann.

Verða einhverjar breytingar á stjórnendateymi Gamma, stjórn eða starfsmannafjölda?
„Hluti af samkomulaginu var að allir lykilstjórnendur eru búnir að skuldbinda sig til að vinna áfram þannig að við erum ekki að gera ráð fyrir miklum breytingum. Að öðru leyti verður náttúrulega einhver samþætting í rekstri og eflaust einhverjar starfsmannabreytingar en það liggur bara ekkert nákvæmlega fyrir núna,“ segir Ármann Þorvaldsson.