Segir Klausturmálið hafa verið áfall

14.12.2018 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingfundum hefur verið frestað og haustönn þingsins var ein sú afkastamesta í sögu Alþingis. Forsætisráðherra segir Klausturmálið og fleiri mál hafa verið áfall, verkefnið framundan sé að efla traust Alþingis. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar sagði síðustu vikur hafa verið mörgum erfiðar.

Þingfundum var frestað í dag og urðu tíu frumvörp að lögum nú síðdegis. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að hún muni hreinlega ekki til þess á þeim 11 árum sem hún hafi verið þingmaður að þingi sé lokið á tilsettum tíma. „Ég held að það sýni bara einarðan vilja okkar hvort sem við tilheyrum meirihluta eða minnihluta hér í þinginu að skipuleggja störf þingsins betur.“

Katrín segir að Klausturmálið svokallaða hafi sett svip sinn á þingstörfin. „Það hefur óneitanlega gert það og það liggur fyrir að þetta hefur haft veruleg áhrif á okkur öll sem hér störfum af því að það skiptir auðvitað mjög miklu máli að við sem hér störfum, þó okkur greini á um hluti, að við séum sammála um það að við getum borið virðingu hvert fyrir öðru í okkar störfum.“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, gerði síðustu daga einnig að umtalsefni þegar hann kvaddi þingmenn. „Undanfarnir dagar hafa ekki að öllu leyti verið einfaldir eða auðveldir hér á Alþingi. Engu að síður hefur þingið skilað góðu verki í þingstörfunum undanfarnar vikur.“

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, tók í sama streng í ræðu sem hún flutti fyrir hönd þingmanna. Síðustu vikur hefðu verið erfiðar og þingmenn haft áhyggjur af virðingu Alþingis og dvínandi trausts til stjórnmálamanna. Hún sagði eðlilegt að hart væri tekist á um ólík sjónarmið en „ef ekki ríkir innbyrðis virðing og traust innan veggja Alþingis er þess ekki að vænta utandyra. Við verðum að finna leiðir til að breyta stöðunni, Alþingi í hag.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV