Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Segir kjúkling ræktaðan á mannúðlegan hátt

28.01.2014 - 11:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Dýraverndarsambands Íslands hefur gagnrýnt aðbúnað á kjúklinga- og svínabúum hér á landi. Ingimundur Bergmann, formaður Félags kjúklingabænda, segir kjúklingabændur hafa hag af því að hugsa vel um kjúklinga og þeir séu ræktaðir á mannúðlegan hátt.

Sif Traustadóttir,dýralæknir og formaður Dýraverndarsambands Íslands, og Guðný Nielsen, formaður grasrótarsamtakanna Velbús, gagnrýndu aðbúnað á kjúklinga- og svínabúum hér á landi í þættinum Sunnudagsmorgunn. Þær segja að áherslan á að framleiða sem mest fyrir sem minnstan pening hafi leitt til verksmiðjubúskaps þar sem dýr séu innilokuð í miklum þrengslum allt árið um kring.

Ingimundur Bergmann, formaður Félags kjúklingabænda, segir þetta rangt. Kjúklingarækt sé ekki meiri verksmiðjubúskapur en annar búskapur. Íslensk veðrátta leyfi geri kjúklingabændum ekki kleift að hleypa fuglunum undir bert loft. Hann segir frásagnir af kjúklingum með svo stórar bringur að þeir standi ekki undir eigin þunga ýkjur. Kjúklingabændur stundi hins vegar kynbætur eins og aðrir bændur.

Ingimundur segist hafa orðið var við áhuga á lífrænni framleiðslu meðal kjúklingabænda. Slík framleiðsla muni þó ávallt verða mun dýrari en hefðbundin framleiðsla.