Segir Johnson hafa káfað á sér

30.09.2019 - 05:46
epa07879229 British Prime Minister Boris Johnson prepares to appear on the BBC's Andrew Marr show at Media City in Salford before opening the Conservative party annual conference at the Manchester Convention Centre, Salford, Britain, 29 September 2019. The Conservative Party Conference runs from 29 September to 02 October 2019.  EPA-EFE/STEFAN ROUSSEAU/PRESS ASSOCIATION/POOL
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL
Öll spjót standa nú á Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Í gær, þegar hann hefði eflaust viljað einbeita sér að landsfundi Íhaldsflokksins, þurfti hann að svara ásökunum um áreitni í garð fjölmiðlakonu. 

Ofan á harða andstöðu á breska þinginu hefur lögreglunni í Lundúnum borist gögn er varða embættisfærslur hans þegar hann var borgarstjóri í höfuðborginni. Nú er hann sakaður um að hafa gripið í læri tveggja kvenna í hádegisverði þegar hann var ritstjóri tímaritsins Spectator.

Charlotte Edwardes, blaðamaður The Sunday Times, segir að hún hafi setið hádegisverð með Johnson árið 1999. Johnson hafi fært hönd sína undir borðið og gripið ofarlega um innanvert læri hennar, nógu mikið til þess að hún stífnaði upp. Edwardes segir Johnson einnig hafa klipið aðra konu á svipaðan hátt í sama hádegisverði.

Fátt var um svör þegar sóst var eftir því á skrifstofu forsætisráðherrans við Downingstræti 10. Eftir að ráðherrar stjórnar Johnsons voru þráspurðir af fjölmiðlum kom yfirlýsing frá talsmanni forsætisráðuneytisins sem sagði að ásökunin væri ósönn. Guardian segir forsætisráðherrann bálreiðan yfir ásökuninni og hún sé algjör þvættingur.

Edwardes stendur við sína hlið. Hún skrifaði á Twitter í gær að ef forsætisráðherrann man ekki eftir þessu sé hún greinilega með betra minni en hann.

Heilbrigðisráðherrann Matt Hancock varði Johnson í fyrstu með því að segja að þessar ásakanir vörðuðu einkalíf hans, og Johnson hafi aldrei sagt öðrum hvernig einkalíf þeirra eigi að vera. Hann kom svo fram í fréttum Channel 4 sjónvarpsstöðvarinnar þar sem hann sagðist þekkja Edwardes og sagði hana trúverðuga. Amber Rudd, flokkssystir þeirra Hancock og Johnson, kvaðst sammála Hancock á Twitter. 

 

Johnson hafði eflaust vonast eftir því að geta notað landsfund Íhaldsflokksins til þess að ýta áfram áætlun sinni um að koma Bretum úr Evrópusambandinu í lok október. Hvort sem það yrði með eða án samnings. Þess í stað hefur hann þurft að svara fjölda ásakana. Auk þessa máls hafa komið fram upplýsingar um umdeilt samband hans við bandaríska fjármálakonu, Jennifer Acuri. Fyrirtæki hennar hlaut opinbera fjárstyrki í Bretlandi. Lögreglan athugar nú hvort nægt tilefni er til þess að rannsaka embættisfærslur Johnson í tengslum við það.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi