Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir jafnvel hótað að skaða sem mest

07.03.2019 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Samtaka iðnaðarins segir að lamandi verkföll ofan í stöðuna í samfélaginu geti valdið miklum skaða. Þá séu launahækkanir stjórnmála- og embættismanna algjörlega út úr korti. Forseti Íslands hyllti iðnaðarmenn með nokkurs konar rappi í dag.

Iðnþing var haldið í dag á 25 ára afmæli Samtaka iðnaðarins. Guðrún Hafsteinsdóttir var endurkjörin formaður. Í ræðu sinni sagði hún að minnt væri á að stöðugleikinn, sem væri mikilvæg forsenda öflugs iðnaðar og blómlegs efnahagslífs, væri ekki sjálfgefinn.

„Staðan á vinnumarkaði er grafalvarleg. Eftir fordæmalausa hagsveiflu sjáum við skýr merki kólnunar í hagkerfinu - í fyrsta sinn í sjö ár. Lamandi verkföll beint ofan í þessa stöðu gætu valdið miklum skaða. Um það er ekki deilt. Því er jafnvel hótað að skaða sem mest.“

Hún sagði verkalýðshreyfinguna iðulega vísa til þess að úrskurðir kjararáðs hafi ekki verið í samræmi við svigrúmið.

„Og þar erum við sammála. Launahækkanir stjórnmálamanna og embættismanna á einu bretti um rúm 40% voru algjörlega út úr korti. Opinberir starfsmenn ættu aldrei að leiða launaþróunina í samfélaginu.“

Forseti Ísland ávarpaði Iðnþing og bað fólk að reyna að ímynda sér samfélag án iðnaðarmanna. Hann fór yfir hópinn í stafrófsröð og við skulum grípa niður í ræðu hans þegar hann var kominn að M.

„ ...málmsteypa, málmsuða, mjólkuriðn, mótasmíði, múraraiðn, myndskurður, netagerð, persónuljósmyndun, pípulagnir, prentsnið, prentun, rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun, rafvirkjun, rennismíði, símsmíði, skipasmíði, bátasmíði, skósmíði, skóviðgerð, skrúðgarðyrkja, snyrtifræði, stálskipasmíð, stálvirkjasmíði, steinsmíði, söðlasmíði, tannsmíði, úrsmíði, veggfóðrun og vélvirkjun...“

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV